Hoppa yfir valmynd
2. október 2006 Utanríkisráðuneytið

“Ísland í þjóðleið – Siglingar á norðurslóðum og tækifæri Íslands”

Það er mér sönn ánægja að veita þessu merka greinasafni viðtöku og titill safnsins “Ísland í þjóðleið – Siglingar á norðurslóðum og tækifæri Íslands” er svo sannarlega viðeigandi þar sem verulegar líkur eru á því að siglingar á norðurslóðum muni stóraukast samfara hlýnun loftslags og opnun nýrra siglingaleiða milli Asíu og Norður-Ameríku um norðurhöf.

Eitt markverðasta framlag Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar var ekki síst fólgið í því að skapa vonbjarta ímynd af norðrinu og í dag er mönnum tamt að lýsa þessum nyrsta hluta norðuhvelsins sem “svæði hinna ónýttu tækifæra” eða jafnvel “Miðjarðarhafi norðursins”.

Ég hef sett málefni norðurslóða á oddinn í starfi mínu sem utanríkisráðherra og setti nýverið á fót starfshóp, sem hefur meðal annars það viðfangsefni að undirbúa alþjóðaráðstefnu hér á Akureyri í mars n.k. Eitt þeirra sjónarhorna sem koma til skoðunar í vinnu starfshópsins eru einmitt byggðaþróunarmál og tækifæri fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni, sem mér eru mjög hugleikin.

Það er að mínu viti einkar viðeigandi að halda slíka alþjóðaráðstefnu á Akureyri. Hér starfa framkvæmdaskrifstofur fyrir tvo af starfshópum Norðurskautsráðsins, PAME og CAFF, að ógleymdri Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólanum á Akureyri.

Mikilvæg vinna á sér nú einmitt stað undir merkjum PAME um siglingar á norðurslóðum, og ég hef í hyggju að beina kastljósinu að því starfi á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem haldinn verður í Salekhard í Rússlandi í lok næsta mánuðar. Þá er “norðurslóðagáttin” (Artic Portal) á vegum CAFF einkar áhugavert verkefni, sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að styrkja með þriggja milljón króna framlagi, og tel ég verkefnið hafa mikla þýðingu fyrir eftirlit og rannsóknir á lífríkinu á norðurslóðum, ekki síst í ljósi loftslagsbreytinga.

Á vettvangi Stofnunar Villhjálms Stefánssonar er áfram unnið mikilvægt starf við að fylgja eftir brautryðjendaskýrslu Norðurskautsráðsins um mannlíf á norðurslóðum og utanríkisráðuneytið átti ennfremur einkar ánægjulegt samstarf við Háskólann á Akureyri á meðan á formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu stóð.

Ég vil óska ykkur til hamingju með útgáfuna og vænti mikils af áframhaldandi góðu samstarfi okkar í þessum mikilvæga málaflokki.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum