Hoppa yfir valmynd
26. október 2005 Utanríkisráðuneytið

60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna

Ávarp Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, á ráðstefnu Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi 24. október 2005 í tilefni af 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna.




Ávarp á ráðstefnu Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

í tilefni af 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna


Góðir ráðstefnugestir,

Ísland var ekki meðal þeirra rétt rúmlega 50 ríkja sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar í San Francisco í júní 1945. Okkur hafði þó verið gefinn kostur á að gerast stofnaðili. Af því gat hins vegar ekki orðið því Ísland hafði ekki sagt möndulveldunum og bandamönnum þeirra stríð á hendur, en það var á þessum tíma skilyrði fyrir aðild að samtökunum. Hins vegar fylgdust íslensk stjórnvöld með þróuninni af áhuga og Alþingi ályktaði að það væri Íslendingum mikil nauðsyn að verða þá þegar þátttakendur í samstarfi hinna sameinuðu þjóða.

Um þetta leyti var lýðveldið Ísland að stíga sín fyrstu skref í utanríkismálum. Áhugavert er að ríkisstjórn þess tíma taldi að sjálfstæði þjóðarinnar yrði best tryggt með aðild að alþjóðasamningum og þá kom einkum til álita að það yrði gert með þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum. Þannig gerðu íslenskir ráðamenn sér grein fyrir mikilvægi þess að taka þátt í þessu samstarfi en markmið þess var “að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið” eins og segir í inngangi að sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir gagnrýni sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sætt í gegnum árin, og sem oft hefur verið réttmæt, er ljóst að merkum áfanga var náð í alþjóðastjórnmálum með stofnun samtakanna fyrir 60 árum. Þar tókst að ná samkomulagi um grundvallarreglur og markmið fyrir ríki heims. Þessar grundvallarreglur voru alls ekki sjálfsagðar þá og enn vantar upp á að allir virði þær. Þær eru:

1. “að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar,”

2. “að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningum leiðir og öðrum heimildum þjóðarréttar”

3. ”að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum…”

Eitt af því sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu fram yfir fyrirrennara sinn, Þjóðabandalagið, var visst raunsæi varðandi stöðu stórveldanna í heiminum, nauðsyn þess að tryggja þátttöku þeirra en jafnframt að viðurkenna styrk þeirra og möguleika til að fara eigin leiðir. Þetta raunsæi endurspeglaðist einkum í öryggisráðinu. Ljóst var að stórveldin myndu ekki fallast á að Sameinuðu þjóðirnar tækju á knýjandi vandamálum nema þau gætu beitt neitunarvaldi í ráðinu, teldu þau hagsmuni sína krefjast þess.


Sameinuðu þjóðirnar hafa þróast í samræmi við breytta tíma. Aðildarríkjunum hefur fjölgað úr 51 ríki árið 1945 í 191 í dag. Samtökin hafa tekið að sér fjölmörg verkefni á sviðum vísinda, menntunar, hafréttar og félags- og jafnréttismála svo eitthvað sé nefnt. Friðargæsla, sem ekki er minnst á í stofnsáttmálanum, er orðin sjálfsagt hlutverk samtakanna víða um heiminn. Þá má nefna að viðurkennt er í niðurstöðum nýafstaðins leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna að alþjóðasamfélaginu beri skylda til að vernda fólk gegn stórfelldum mannréttindabrotum af hálfu stjórnvalda. Öryggisráðið og önnur alþjóðasamtök hafa því umboð til afskipta af innanríkismálum þegar framdir eru glæpir gegn mannkyninu.

Öryggismál eru eðlilega nú eins og 1945 ofarlega í hugum aðildarríkjanna og er unnið að því að gera samtökin skilvirkari og áhrifameiri í þeim efnum. Í þeim tilgangi er nú, samkvæmt ákvörðun leiðtogafundarins í síðasta mánuði, unnið að gerð yfirgripsmikils alþjóðasamnings um hryðjuverk og á þeirri vinnu að ljúka á yfirstandandi allsherjarþingi. Þetta er mikilvægt mál sem íslensk stjórnvöld styðja heilshugar. Þau hafa jafnframt lagt áherslu á að baráttan gegn hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda eða mannúðarlaga.


Þótt nokkuð hafi áunnist á leiðtogafundinum hafa margar ríkisstjórnir látið í ljós vonbrigði með niðurstöður hans. Ekki tókst t.d. að ná samstöðu um frekari aðgerðir gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna og enn vantar verulega upp á nauðsynlegar umbætur á samtökunum sjálfum til að gera þau skilvirkari og trúverðugari en nú er.

Umræðan um umbætur á Sameinuðu þjóðunum er mjög þörf. Sameinuðu þjóðirnar eru þrátt fyrir allt með einstökum hætti til þess fallnar að fást við þau mörgu vandamál sem uppi eru í heiminum og leysa af hendi mikilvæg verkefni. Þessu til stuðnings vil ég nefna að gerð hafréttarsamningsins á sínum tíma hefði verið óhugsandi á öðrum vettvangi en hjá Sameinuðu þjóðunum. Aukin alþjóðavæðing veldur því að segja má að Sameinuðu þjóðirnar séu veröldinni þarfari nú en nokkru sinni áður. Jafnframt eru gerðar auknar kröfur til samtakanna.


Breyttir tímar og auknar kröfur kalla því á breytingar á skipulagi og starfi Sameinuðu þjóðanna. Þannig er öryggisráðið barn síns tíma og nauðsynlegt að breytingum á því verði hraðað. Ísland styður eindregið að gerðar verði róttækar umbætur á skipan mannréttindamála í Sameinuðu þjóðunum. Lýðræði og virðing fyrir mannréttindum eru lykilatriði fyrir frið og stöðugleika í heiminum. Mannréttindanefndin er rúin trausti og trúverðugleika. Tryggja verður að hið nýja mannréttindaráð, sem verið er að koma á fót, geti tekið á þessum málum með allt öðrum hætti og betur en mannréttindanefndin.

Góðir áheyrendur.

Sameinuðu þjóðirnar hafa vissulega náð margvíslegum árangri á þeim sextíu árum sem liðin eru frá stofnun þeirra. Þær hafa greitt götu ríkja til sjálfstæðis, unnið að þróunar- og mannúðaraðstoð og verið í forystunni í baráttunni gegn hungri og fátækt og svo mætti lengi telja. Þegar fjallað er um Sameinuðu þjóðirnar beinist athyglin hins vegar oftast að þeim deilumálum sem efst eru á baugi. Mikilvæg störf þúsunda einstaklinga í fjölda stofnana Sameinuðu þjóðanna vilja á hinn bóginn falla í skuggann.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur Íslendingum sé það afar nauðsynlegt að taka virkan þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna og leggja þannig okkar af mörkum til velferðar mannkyns. Á undanförnum árum hefur Ísland tekið á sig aukna ábyrgð og eflt þátttöku sína í alþjóðasamstarfi. Með framboðinu til öryggisráðsins hafa Íslendingar sagt við þjóðir heims að við séum tilbúin til að taka á okkur enn meiri ábyrgð í samfélagi þjóðanna.

Að lokum vil ég þakka aðstandendum ráðstefnunnar fyrir þeirra góða framtak og óska ykkur öllum til hamingju með þessa nýju glæsilegu miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum