Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2005 Utanríkisráðuneytið

Ræða Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, um utanríkismál

Utanríkisráðuneytið

apríl 2005

 

(TALAÐ ORÐ GILDIR)


 

            Hinn 1. apríl síðastliðinn voru 150 ár frá því að Íslendingar fengu fullt verslunarfrelsi. Jón Sigurðsson forseti og fylgismenn hans gerðu sér grein fyrir mikilvægi frjálsrar verslunar fyrir íslenskt samfélag. Verslunarfrelsi markaði að þeirra mati upphaf betri tíðar.  Jón Sigurðsson sagði: “Því aðeins geta þjóðirnar til fulls þekkt sig sjálfar, að þær þekki einnig aðrar þjóðir, gefi nákvæman gaum að öllu lífi þeirra og framförum og taki dæmi þeirra og reynslu sér til eftirdæmis og viðvörunar.” Og enn sagði Jón: “Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.” Jón Sigurðsson hitti eins og endranær naglann á höfuðið.

 

Ég tel við hæfi af þessu tilefni að hefja mál mitt með því að fjalla um utanríkisviðskiptamál.

 

Á undanförnum árum hafa verið stigin markviss skref til að leysa íslenskt atvinnulíf úr fjötrum hafta og ríkisafskipta. Skattar hafa verið lækkaðir og framlög til rannsókna og þróunar aukin, sem hefur leitt til hærra menntunarstigs þjóðarinnar. Í alþjóðlegum samanburði er reglulega frá því greint að Ísland sé í fremstu röð ríkja varðandi ákjósanlegt viðskiptaumhverfi. Það er fagnaðarefni.

 

Öflugir lífeyrissjóðir og einkavæðing bankanna ásamt auknu viðskiptafrelsi hafa skapað svigrúm til útrásrar íslensks atvinnulífs. Reistar hafa verið traustar stoðir undir sjávarútveginn. Með kvótakerfinu er fiskur veiddur og seldur samkvæmt framboði og eftirspurn á mörkuðum. Það leiðir til aukins aflaverðmætis. Áhrif samdráttar í afla eru því minni en áður, þar sem stöðugleiki hefur tekið við af ringulreið.

 

Allir þessir þættir og reyndar mun fleiri hafa átt ríkan þátt í að skapa grundvöll íslenskrar útrásar. Framleiðni hefur aukist og fjölbreyttari störf orðið til í landinu  svo sem á hugbúnaðarsviðinu, í lyfjageiranum, á fjármálamarkaðnum, í líftækni og svo mætti áfram telja. Á sama tíma er atvinnuleysi með því minnsta sem þekkist. Sókn íslenskra fyrirtækja erlendis byggir því á traustum grunni og aðstæður þeirra hérlendis eru með þeim bestu í heiminum.

 

Samhliða aðgerðum innanlands hafa gæfurík skref verið stigin í utanríkisviðskiptum. Ákvörðunin um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hefur reynst farsæl. Við njótum á þessu svæði að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 27 önnur Evrópuríki með tæplega 500 milljóna manna markað.  Samningurinn hvílir á traustum stoðum. Það kom glöggt í ljós við síðustu stækkun efnahagssvæðisins. Aðildarríkin sýndu þá í verki að þau styðja  samninginn. Hann verður áfram traust undirstaða samskipta og viðskipta Íslands við Evrópu.

 

Evrópumál eru til umræðu í nefnd sem forsætisráðherra skipaði á síðastliðnu ári og fulltrúar allra flokka á Alþingi eiga aðild að. Nefndinni er ætlað að greina aðalatriði mála og helstu staðreyndir til að auðvelda umræðu á réttum forsendum um Evrópumálin.

 

En sjóndeildarhringur viðskipta Íslendinga nær út fyrir Evrópu. Þátttakan í Fríverslunarsamtökum Evrópu - EFTA - hefur verið farsæl og EFTA-ríkin hafa gert fríverslunarsamninga við 14 ríki fyrir utan Evrópusambandið. Samningaviðræður eru nú í gangi við Suður-Afríku og fleiri ríki í þeim heimshluta. Fríverslunarviðræðum við Suður-Kóreu miðar vel og samningar við Tæland hefjast í Reykjavík í maí. Óformlegar viðræður hafa farið fram við ýmis önnur ríki, þ.á m. Bandaríkin og Kína, en erfiðlega hefur gengið að ljúka samningum við Kanada. Það ætti ekki að koma á óvart að það eru oft stærri ríki sem óskað hafa eftir fríverslunarsamningum við EFTA ríkin. Þau standa samanlagt að 2% heimsviðskipta sem er álíka mikið og hjá Mexíkó, sem hefur um 100 milljónir íbúa.

 

EFTA-ríkin hafa í vaxandi mæli leitað eftir fríverslun við Asíuríki. Áður fyrr fetuðu þau fremur í fótspor ESB við gerð fríverslunarsamninga, en slíku er ekki til að dreifa í Asíu enda hefur ESB ekki samið um fríverslun í þeim heimshluta. Það er heldur ekki sjálfgefið að hagsmunavarsla EFTA ríkjanna og ESB fari alltaf saman. Stefnt er að fríverslun milli Íslands og Kína fyrir árið 2007 og unnið að viljayfirlýsingu um samningaviðræður þar að lútandi. Nú þegar er fjárfestingasamningur í gildi milli ríkjanna, ferðamálasamningur var gerður í fyrra og nýlega var undirritaður einn umfangsmesti loftferðasamningur sem gerður hefur verið af Íslands hálfu.

 

Hvað varðar næsta nágrenni Íslands, þá finnum við til sérstakrar samkenndar með frændum okkar Færeyingum. Það er því gleðiefni að innan tíðar verður undirritaður fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja sem er umfangsmesti samningur af því tagi sem Ísland hefur gert. Hann nær til búvara og samkvæmt honum verða Íslendingar og Færeyingar jafnt settir í viðskiptalegu tilliti í löndum hvorra annarra. Markmiðið er að Grænland geti einnig gerst aðili að þessum samningi í náinni framtíð.

 

Þótt tvíhliða og svæðisbundið viðskiptasamstarf sé mikilvægt er einnig lykilatriði að efla alþjóðlegt viðskiptasamstarf. Fríverslun er leiðin til betri lífskjara fyrir alla. Niðurstaða svonefndrar Doha-samningalotu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun hafa áhrif víða um heim. Viðskiptahindrunum verður rutt úr vegi, tollar á iðnvarning munu lækka, og skýrari leikreglur verða settar um alþjóðaviðskipti,  sem gagnast einkum smærri ríkjum. Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að viðskiptahamlandi ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði afnumdir og hefur dregið úr andstöðu ýmissa ríkja í þessu efni.

 

Þjónustuviðskipti eru sá þáttur alþjóðaviðskipta sem er í örustum vexti og mikilvægt að að árangur náist varðandi þennan viðskiptageira.  Þá er ljóst að niðurstaða yfirstandandi samningalotu mun stórauka viðskipti milli ríkja með landbúnaðarafurðir. Gera má ráð fyrir að útflutningsbætur verði afnumdar, dregið verði úr markaðshvetjandi ríkisstuðningi og tollar verði lækkaðir og markaðsaðgengi muni aukast. Mikilvægt er hins vegar að Doha-lotan taki tillit til sérstöðu og viðkvæmni landbúnaðar á jaðarsvæðum. Þar hefur Ísland sömu sjónarmið og mörg önnur ríki. Fyrirsjáanlegt er að ef Doha-lotunni lýkur eins og til stendur í lok næsta árs, þá hefur það áhrif á opinberan stuðning við íslenskan landbúnað.

 

Alþjóðavæðingin hefur haft mikil áhrif á starfsemi utanríkisþjónustunnar. Hún hefur á undanförnum misserum endurskipulagt og aðlagað þjónustu sína við atvinnulífið. Hluti af þeirri endurskipulagningu var að koma á stórauknu samstarfi við Útflutningsráð en sú samvinna hefur mælst vel fyrir hjá fyrirtækjum. Með þessum breytingum er ljóst að íslensk fyrirtæki geta notað net sendiráða og viðskiptafulltrúa á erlendri grund á enn virkari og áhrifaríkari hátt en áður.

 

Ferðaþjónustan er í stöðugri sókn og skapar um 15% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Margir opinberir aðilar, svo sem utanríkisþjónustan, Útflutningsráð og Ferðamálaráð, koma að landkynningu. Það er sjónarmið þeirra sem að þessum málum koma að eðlilegt sé að auka bæði samvinnu og samhæfingu í markaðs- og landkynningarmálum til að nýta sem best bæði mannafla og fjármagn sem til þessara mála er varið. Tilgangurinn með stofnun sérstakrar skrifstofu ferðamála og viðskiptaþjónustu í utanríkisráðuneytinu um síðustu áramót var að gera þessum málaflokki hærra undir höfði, sem mun skila bættri þjónustu við fyrirtækin í landinu og þá ekki síst á vettvangi ferðamála.

 

 

Herra forseti,

 

Aðstoð Íslands við þróunarríki fer vaxandi og er orðinn mikilvægur þáttur í íslenskri utanríkisstefnu. Framlag Íslands til þróunarsamvinnu á þessu ári verður um það bil 0,2% af vergri landsframleiðslu en þróunaraðstoð OECD-ríkjanna er að meðaltali 0,25%. Stefnan er að á árinu 2009 nái aðstoð Íslands 0,35% af vergri landsframleiðslu. Væri miðað við þetta hlutfall og landsframleiðslu ársins 2004 hefði þróunaraðstoðin þá numið þremur milljörðum króna.  Aukinni aðstoð verður varið í samræmi við áherslur sem er lýst í sérstakri skýrslu sem lögð hefur verið fram á Alþingi til kynningar.

 

Þróunarsamvinnustofnun Íslands undirbýr um þessar mundir aðstoð við tvö ný samstarfsríki, Srí Lanka og Níkaragva auk þeirra fjögurra Afríkuríkja þar sem stofnunin starfar þegar. Þróunaraðstoðinni er einnig beint til margra annarra mikilvægra verkefna þar á meðal til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og sjóðs á vegum samtakanna um málefni kvenna, auk framlaga til matvælaáætlunarinnar. Ísland mun ennfremur styðja þróunarstarf Sameinuðu þjóðanna með þeim hætti að senda unga íslenska sérfræðinga til starfa á vegum samtakanna í þróunarlöndum. Hér er um að ræða sérstakt verkefni sem ætlað er að kveikja áhuga ungs fólks á þróunarmálum. Þá hefur þátttaka Íslands í samstarfi Alþjóðabankans og fleiri alþjóðastofnana við þróunarlönd  í sjávarútvegsmálum þegar verið aukin og tengsl Íslands við smáeyþróunarríki efld með sérstökum styrktarsjóði á okkar vegum.

 

Í þróunarsamvinnu Íslands við sunnanverða Afríku á undanförnum árum hefur reynst nauðsynlegt til þess að aðstoðin skili betri árangri en ella að reka sendiskrifstofur í Úganda, Malaví, Mósambík og Namibíu. Ísland hefur haft sendiherra í þessum heimshluta með aðsetur í Mósambík. Það verður af hagkvæmnisástæðum flutt til Suður-Afríku um næstu áramót.

 

Það veldur áhyggjum þegar horft er til pólitískrar og efnahagslegrar þróunar víða um heim á undanförnum áratugum hversu ríkin í Afríku sunnan Sahara hafa almennt staðið í stað eða þeim jafnvel hrakað þrátt fyrir stórfellda þróunaraðstoð. Árið 1990 höfðu 227 milljónir Afríkubúa undir einum Bandaríkjadal til framfærslu á dag en áætlað er að árið 2015 verði fjöldinn að óbreyttu komin í 340 milljónir. Ástæðurnar eru margþættar og sem betur fer má víða binda vonir við að úr rætist, en ljóst er að slæmir stjórnarhættir hafa valdið miklum skaða. Það er til dæmis með ólíkindum að Zimbabwe, sem áður var eitt efnaðasta ríki sunnanverðrar Afríku, skuli nú vegna harðstjórnar og spillingar vera á meðal þeirra fátækari. Það er á ábyrgð þróunarríkja að koma á lýðræði og mannréttindum sem eru forsendur bættra stjórnarhátta. Um leið er það skylda þróaðra ríkja að styðja viðleitni í þessa átt í þróunarlöndum.  Annað væri ekki bara sóun á fjármunum sem fara til þróunaraðstoðar, heldur einnig svik við íbúa þróunarríkjanna. Íslensk stjórnvöld hafa meðal annars horft til stjórnarfars við ákvarðanir um þróunarsamstarf.

 

Stofnun Afríkusambandsins endurspeglar vilja Afríkuríkja til að taka á málum eigin heimsálfu og störf eftirlitssveita sambandsins í Darfúr-héraði í Súdan er fyrsta prófraunin. Þá getur framkvæmd friðarsamkomulagsins við uppreisnarmenn í suður-Súdan orðið vegvísir að því að skálmöldinni í Darfúr ljúki. Með það í huga hafa íslensk stjórnvöld lofað 65 milljóna króna framlagi til endurreisnar í Súdan. Enn er of snemmt að segja hvernig til tekst en ljóst er að á meðan samfélag þjóðanna veltir vöngum yfir hvað skuli til bragðs taka, halda fjöldamorð, nauðganir og eyðilegging áfram í Darfúr og milljónir manna eru á flótta. Samtímis tekur Súdan sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem Zimbabwe situr reyndar einnig sem og fleiri ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin.

           

Súdan er landfræðilega og menningarlega á mörkum sunnanverðrar Afríku og Mið-Austurlanda og í landinu birtast meginvandamál beggja heimshluta. Líkt og verið hefur víða í Afríku eru slæmir stjórnarhættir dragbítur á efnahagslega og félagslega þróun flestra ríkja í Mið-Austurlöndum. Andstætt því sem gerist víða annars staðar í heiminum þá fjölgar fólki í Mið-Austurlöndum sem er undir fátækramörkum. Skýrslur Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna staðfesta að orsakanna er fyrst og fremst að leita í stjórnarháttum sem og samfélagsgerð.

           

Lýðræðislegir og skilvirkir stjórnarhættir eru því lykillinn að framförum og öryggi í Mið-Austurlöndum. Vel heppnaðar kosningar í Írak í janúar síðastliðnum og ótvíræð hvetjandi áhrif þeirra á nágrannaþjóðir eru því mikið fagnaðarefni.  Áhrifanna hefur ekki síst gætt í Líbanon síðustu vikurnar. Stundum virðist gefið í skyn að íbúar Mið-Austurlanda kæri sig ekki um lýðræði að vestrænni fyrirmynd. Slíkt er fjarstæðukennt og endurspeglar fordóma sem þjóna einungis afturhaldsöflum. Áhersla vestrænna ríkja á að koma verði á lýðræði og tryggja mannréttindi í þessum heimshluta hefur vissulega fengið hljómgrunn á meðal íbúanna að undanförnu. 

           

Nú eru liðin rúm tvö ár frá innrásinni í Írak og þótt pólitískar umbætur hafa tekist betur en margir þorðu að vona þá hefur endurreisnarstarfinu miðað hægar. Það stafar nær einvörðungu af árásum hryðjuverkamanna. Það er því hvort tveggja pólitísk og efnahagsleg nauðsyn á því að Írökum verði gert kleift að tryggja eigið öryggi. Það er í raun forsenda endurreisnar og brottflutnings fjölþjóðlega herliðsins. Íslensk stjórnvöld ákváðu þess vegna að leggja af mörkum til þjálfunar íraskra öryggissveita á vegum Atlantshafsbandalagsins í Írak.

           

Fyrir botni Miðjarðarhafs hefur það ræst sem margir spáðu að fráfall Yassers Arafats mundi skapa nýtt tækifæri til lausnar deilna Palestínumanna og Íraelsmanna vegna þess að hann hefði um árabil verið Þrándur í Götu friðar. Palestínumenn hafa gengið til forsetakosninga og myndað hæfa ríkisstjórn og í Ísrael hefur ný samsteypustjórn tekið við völdum, sem hefur ákveðið brottflutning ísraelska hersins og landnema frá Gaza-svæðinu. Hvort tveggja eru skref sem gefa tilefni til varkárrar bjartsýni en ljóst er að öfgaöfl munu áfram reyna að blása í glæður ófriðar.  Nú skiptir meiru en nokkru sinni að palestínska stjórnin haldi áfram að stuðla að friði með því að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir á Ísrael. Jafnframt verða stjórnvöld í Ísrael að standa við skuldbindingar í svonefndum vegvísi til friðar varðandi landnemabyggðir á Vesturbakkanum.

           

Í Afganistan hefur ríkisstjórninni í Kabúl tekist að treysta stöðu sína og stefnir að lýðræðislegum þingkosningum á komandi hausti. Þetta helst í hendur við vaxandi umsvif friðargæsluliðs Atlantshafsbandalagsins með sérstökum endurreisnarsveitum víða um landið.  Eftir að síðustu starfsmenn Íslensku friðargæslunnar fara frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl eftir rúman mánuð, mun Ísland hefja þáttöku í endurreisnarsveitum í norðurhluta Afganistans með Norðmönnum og Finnum og í vesturhlutanum með Litháum, Lettum og Dönum. Gert er ráð fyrir að framlag Íslands á hvorum stað verði tveir sérbúnir jeppar og átta til níu manns. Með þessum hætti verður Ísland þátttakandi í skipulagi og framkvæmd endurreisnarstarfs í Afganistan. Í þessu felst meðal annars að friðargæsluliðar fara um og kanna aðstæður í þorpum og sveitum og gera tillögur um úrbætur til viðeigandi hjálparsamtaka og alþjóðastofnana. Á þeim stöðum sem íslensku friðargæsluliðarnir koma til með að starfa eru samgöngur mjög erfiðar og reynsla Íslendinga kemur að gagni. Ég vil nefna í þessu samhengi að unnið er að því að semja frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna og búa til siðareglur fyrir liðsmenn hennar. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram í haust. 

 

Jákvæð þróun mála í Afganistan hefur að nokkru leyti fallið í skugga vaxandi spennu í samskiptum nágrannaríkisins Írans annars vegar og samfélags þjóðanna hins vegar. Viðleitni til að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna beið hnekki þegar Indland og Pakistan gerðu tilraunasprengingar og misvísandi yfirlýsingar stjórnvalda í Norður-Kóreu reyna enn frekar á þolrifin. Íran er aðili að samningnum gegn útbreiðslu kjarnavopna og því skuldbundið til að nýta kjarnorku einungis í friðsamlegum tilgangi undir eftirliti Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Undanbrögð íranskra stjórnvalda í þessu efni eru staðreynd. Þá er ljóst að smíði þau kjarnavopn færu önnur ríki að dæmi Írans. Það gæti eyðilagt samninginn gegn útbreiðslu kjarnavopna og aðrar alþjóðlegar aðgerðir til að stemma stigu við fjölgun kjarnavopnaríkja. Þá er ónefnd spennan sem fylgja mundi því að klerkastjórnin í Íran réði yfir kjarnavopnum. Það er því uppörvandi að á vettvangi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar virðist samstaða um að halda írönskum stjórnvöldum að skuldbindingum sínum sínum enda er þetta prófraun fyrir stofnunina og samninginn. Viðleitni þriggja aðildarríkja Evrópusambandsins, Bretlands, Frakklands og Þýskalands, til að finna diplómatíska lausn er lofsverð og mikilvægt er að bandarísk stjórnvöld styðja þessa nálgun. Eftir stendur spurningin um hvernig bregðast skuli við haldi írönsk stjórnvöld áfram að leika tveimur skjöldum. Ennfremur má spyrja hversu langt eigi að ganga í samningum sem styrkja stöðu klerkastjórnarinnar á kostnað lýðræðisafla.

 

Gereyðingarvopn í höndum skálkastjórna og annarra óábyrgra ríkja er mesta öryggisógn sem steðjar að mannkyninu um þessar mundir ásamt hættunni á að hryðjuverkamenn eignist slík vopn. Ekki verður dregið úr þessari ógn eða henni bægt frá nema með nánu samstarfi ríkjanna í Atlantshafsbandalaginu. Sameiginlegir öryggishagsmunir þeirra eru ekki minni nú en áður.

 

Gagnlegar umræður um stöðu og framtíð evrópskra öryggis- og varnarmála hafa haldið áfram með hliðsjón af aðlögun Atlantshafsbandalagsins og þróun samrunaferlisins innan Evrópusambandsins, en augljóst samhengi er þarna á milli. Atlantshafsbandalagið er og verður hornsteinn öryggis og varna aðildarríkjanna, enda vilja mörg aðildarríkja ESB engar breytingar í því efni. Það á ekki síst við nýju aðildarríkin sem treysta á bandalagið um öryggi sitt vegna þess að í því felast tengslin yfir hafið til Bandaríkjanna. ESB getur hins vegar tekið að sér tiltekin verkefni, einkum á sviði friðargæslu, og þá er eðlilegt að það geti leitað til Atlantshafsbandalagsins um liðsafla og búnað.

 

Um nokkra hríð hefur staðið til að viðræður hæfust milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin, en það hefur dregist.  Því valda tafir sem hafa orðið á undirbúningi bandarískra stjórnvalda fyrir viðræðurnar. Sem fyrr liggur til grundvallar af Íslands hálfu að hér á landi þurfi að vera lágmarksvarnarviðbúnaður. Jafnframt eru stjórnvöld reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur Keflavíkurflugvallar.

 

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin árið 2001 og Íraksstríðsins hefur verið unnið mikið og þarft starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við að skilgreina hverjar séu helstu ógnir við frið í veröldinn og reynt að leita leiða til að tryggja að samtökin nýtist betur en verið hefur í baráttunni gegn þessum hættum. Fyrir stuttu kynnti Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skýrslu sína um þróun, öryggi og mannréttindi. Þar er meðal annars að finna tillögur um hvernig samtökin eigi að taka á alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, útbreiðslu gereyðingarvopna, fátækt, farsóttum og skipulagðri glæpastarfsemi. Niðurstöður og tillögur Kofi Annans um öryggismálin staðfesta áherslur margra vestrænna ríkja á undanförnum árum, þar á meðal Íslands, einkum hvað lýtur að ógninni sem stafar frá alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Framkvæmdastjórinn bendir einnig á að stundum kunni að þurfa að bregðast við með fyrirbyggjandi hernaðaraðgerðum. Hann hvetur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að ná samstöðu um ákveðnar viðmiðunarreglur um við hvaða aðstæður það gæti heimilað hernaðaraðgerðir. Af skýrslu Annans má ráða að náist ekki samstaða um þetta muni staða öryggisráðsins veikjast. Með öðrum orðum að taki Sameinuðu þjóðirnar ekki á þeim öryggisvanda sem er mest aðkallandi, þá dæmi þær sig úr leik. Í tilefni af 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna munu leiðtogar aðildarríkjanna koma saman í haust og þar verður tekin afstaða til tillagna framkvæmdastjórans. Ísland mun sem fyrr leggja sitt af mörkum til þessarar mikilvægu umræðu.

 

Áfram er unnið að undirbúningi að framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Áleitnar spurningar hafa þó komið upp í mínum huga varðandi kostnað við framboðið og setu Íslands í ráðinu árin 2009 og 2010. Ljóst er að á brattann verður að sækja gegn keppinautunum, en auk Íslands eru Austurríki og Tyrkland í framboði til þeirra tveggja sæta sem tilheyra Vesturlandahópnum svonefnda. Það er óneitanlega miður að honum skuli ekki hafa tekist að komast að samkomulagi um að einungis tvö ríki væru í framboði þannig að smærri aðildarríkjum gæfist kostur á að taka þátt í störfum öryggisráðsins án þess að þurfa að leggja í dýra og erfiða kosningabaráttu. Í utanríkisráðuneytinu var gerð kostnaðaráætlun upp á rúmar 600 milljónir króna vegna kosningabaráttunnar og setunnar í ráðinu. Gera verður ráð fyrir að þegar líði á kosningabaráttuna aukist harkan í henni enn frekar en orðið er og þar með kostnaðurinn. Af þessum ástæðum öllum hefur framboð Íslands verið til skoðunar, sem lýkur á næstu vikum. Ef halda á framboðinu áfram má ekki bíða mikið lengur með að hefja kosningabaráttuna af fullum krafti.

 

Í fyrrnefndri skýrslu Kofi Annans er að finna merka og löngu tímabæra tillögu um að bæta umfjöllun um mannréttindamál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Núverandi fyrirkomulag heimilar ríkjum sem virða mannréttindaskuldbindingar að vettugi að sitja við sama borð og önnur.  Þetta er fáránleg tilhögun, sem gerir samtökin ótrúverðug og gagnslítil. Tillaga framkvæmdastjóra gerir ráð fyrir að stofnað verði nýtt mannréttindaráð, einungis opið þeim sem væru reiðubúnir til að uppfylla ströngustu kröfur í þessum efnum. Ráðinu er ætlað að starfa allt árið, fylgjast með málum og taka á mannréttindabrotum. Þessi tillaga Kofi Annans nýtur eindregins stuðnings íslenskra stjórnvalda og verður vonandi að veruleika.

 

Sameinuðu þjóðirnar reiða sig réttilega mikið á stuðning ýmissa svæðisbundinna samtaka. Þannig gegnir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu mikilvægu hlutverki í stuðningi við lýðræðislega stjórnarhætti, meðal annars með kosningaeftirliti, sem nauðsynlegt er að efla enn frekar. Jafnvel minni samtök en Öryggis- og samvinnustofnunin stuðla beint eða óbeint að öryggi og stöðugleika og má í því sambandi nefna að Ísland tekur fljótlega við formennsku í Eystrasaltsráðinu. Þá er ónefnt það sem má ef til vill telja árangursríkasta svæðissamstarf fyrr og síðar, þ.e. Norðurlandasamstarfið, sem verður eftir sem áður lykilatriði í íslenskri utanríkisstefnu.   

 

 

Herra forseti,

 

Undirbúningi málsóknar fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag gegn Noregi vegna Svalbarðamálsins miðar vel. Fyrir liggur ítarleg og vönduð álitsgerð virts erlends sérfræðings sem leitað var eftir í þessu skyni og er hún nú til skoðunar í ráðuneytinu. Jafnframt hafa verið haldnir tvíhliða samráðsfundir um málið með ýmsum aðildarríkjum Svalbarðasamningsins og fleiri fundir eru áætlaðir á næstunni. Viðkomandi ríki hafa sýnt málinu mikinn áhuga en ljóst er að þau þurfa að taka afstöðu til þess með hvaða hætti þau munu gæta hagsmuna sinna sem aðildarríki samningsins í væntanlegu dómsmáli.

 

Tildrög ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um undirbúning málsóknar gegn Noregi eru sem kunnugt er ítrekuð brot norskra stjórnvalda á Svalbarðasamningnum. Um þverbak keyrði á síðasta ári þegar norsk stjórnvöld komu í veg fyrir framlengingu síldarsamningsins og takmörkuðu í kjölfarið með ólögmætum hætti síldveiðar á Svalbarðasvæðinu í því skyni að styrkja eigin stöðu og veikja stöðu hinna aðilanna að síldarsamningum. Slík misbeiting norskra stjórnvalda á meintum fullveldisréttindum sínum á Svalbarðasvæðinu er óásættanleg. Svo virðist að málsókn sé eina leiðin til að tryggja réttmæta hagsmuni Íslands á svæðinu. 

 

 

Herra forseti,

 

Sem endranær er það tilgangur íslenskrar utanríkisstefnu og markmið utanríkisþjónustunnar að gæta hagsmuna og velferðar lands og þjóðar. Það verður áfram best gert í samstarfi við bandamenn og önnur lýðræðisríki um að tryggja frið og frelsi í heiminum.

           



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum