Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2004 Utanríkisráðuneytið

Ræða Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, um utanríkismál

Herra forseti,

Á undanförnum árum hefur þátttaka Íslands í samráði og samstarfi ríkja á alþjóðavettvangi verið efld. Því veldur þróun alþjóðamála en fleira kemur til. Langvarandi hagvaxtarskeið leiðir til þess að auknar kröfur eru gerðar til íslenskra stjórnvalda vegna útrásar íslenskra fyrirtækja og til þess að meira svigrúm gefst til nauðsynlegrar hagsmunagæslu. Íslendingum er í vaxandi mæli kleift að leggja af mörkum til varðveislu friðar í veröldinni og til að styrkja sjálfbæra þróun í sumum fátækustu ríkjum heims. Hér verður ekki staðar numið því ríkisstjórnin vill af pólitískum og siðferðilegum ástæðum að Ísland láti meira að sér kveða á sviði utanríkismálanna.

Það er meginskylda stjórnvalda fullvalda ríkis að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar. Þetta liggur til grundvallar af Íslands hálfu í væntanlegum viðræðum við Bandaríkjamenn um varnarmálin. Þær fara fram í samhengi við heildarendurskoðun bandaríska varnarmálaráðuneytisins á herstyrk Bandaríkjanna erlendis. Íslensk stjórnvöld hafa ekki hreyft neinum andmælum við eðlilegri aðlögun varnarliðsins að breyttum aðstæðum, sem hefur frá lokum kalda stríðsins falið í sér verulegan samdrátt í búnaði og fækkun liðsmanna. Hins vegar hefur verið lögð rík áhersla á að hér á landi þurfi að vera varnarviðbúnaður eins og í öllum okkar bandalags- og nágrannaríkjum. Jafnframt er ljóst að mikill vöxtur hefur orðið í farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll sem veldur því að stjórnvöld eru reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur hans. Það verður á meðal þess sem ég hyggst ræða við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington 16. nóvember næstkomandi. Tilgangur þess fundar, sem er haldinn í framhaldi af fundi mínum með Bandaríkjaforseta í júlí síðastliðnum, er að koma viðræðum í fastan farveg og eyða óvissu sem uppi hefur verið um framtíð varnarliðsins.

Atlantshafsbandalagið byggir á sameiginlegum grundvallargildum og pólitískri samstöðu bandalagsríkjanna auk herstyrks og varnarskuldbindinga þeirra. Það er til marks um varanlega þýðingu bandalagsins í augum aðildarríkjanna hversu vel hefur tekist að laga það að breyttum aðstæðum eftir kalda stríðið. Í samræmi við nýjar áherslur eru jafnframt uppi aðrar væntingar en áður í bandalaginu um að öll ríki þess axli byrðar eftir bestu getu. Ísland skorast ekki undan í þeim efnum.

Samvinna ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í Atlantshafsbandalaginu er sögulega einstök og árangurinn augljós. Það er ekki til annar raunhæfur valkostur í öryggismálum aðildarríkjanna. Í því ljósi er áhyggjuefni hve margir evrópskir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa alið á andúð á Bandaríkjunum. Það er reginmunur á heilbrigðri gagnrýni og glórulausum fordómum.

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil fylgst með mótun sameiginlegrar stefnu Evrópusambandsins á sviði utanríkismála og öryggis- og varnarmála. Flest aðildarríki sambandsins leggja áherslu á að öryggishlutverk þess og Atlantshafsbandalagsins eru ólík og á mikilvægi þess að forðast tvíverknað í starfi samtakanna. Ísland hefur tekið mjög undir þetta og varað við því að bandalagið verði veikt með nokkrum hætti. Það er staðreynd að hvorki Evrópusambandið né Sameinuðu þjóðirnar geta leyst Atlantshafsbandalagið af hólmi.


Herra forseti,


Í umræðum á Alþingi um skýrslu utanríkisráðherra 6. apríl sl. fjallaði Halldór Ásgrímsson um alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi og benti réttilega á að baráttan gegn þessari vá snýst um grundvallargildi. Ekkert réttlætir hryðjuverk og aldrei má fallast á kröfur hryðjuverkamanna. Jafnframt verður að gæta þess að mannréttindi séu virt og alþjóðlegar skuldbindingar hafðar í heiðri í baráttunni gegn þeim.

Hryðjuverkastarfsemi er þess eðlis að henni linnir ekki fyrr en hryðjuverkamenn hafa náð markmiðum sínum eða þeir lotið í lægra haldi. Oft virðast manndráp og eyðilegging reyndar vera eina markmið þeirra. Þá er mikið áhyggjuefni sá raunverulegi möguleiki að hryðjuverkamenn komist yfir gereyðingarvopn.

Íslensk stjórnvöld hafa af fremsta megni reynt að styðja alþjóðlega viðleitni til að stemma stigu við og uppræta hryðjuverkaöfl. Jafnframt hafa verið gerðar nauðsynlegar ráðstafanir innanlands til að efla öryggi, en styrkja þarf samstarf íslenskra löggæsluaðila við erlend ríki og stofnanir. Þetta varðar einnig miðlun upplýsinga um skipulagða glæpastarfsemi, peningaþvætti og mansal sem hryðjuverkaöfl nota stundum til að fjármagna ódæðisverk.

Nú er liðið rúmlega eitt og hálft ár frá því að Írak var frelsað undan oki Saddams Hussein og böðla hans og bægt var frá þeirri ógn sem stafaði frá stjórninni í Baghdad. Á þessum skamma tíma hefur mikið áunnist í endurreisnarstarfi þrátt fyrir ákafar tilraunir ofbeldisafla til að valda öryggisleysi og upplausn. Bráðabirgðastjórn Íraks hefur tekið við völdum og hafið samráð við hinar ýmsu stjórnmálahreyfingar og stefnt er að almennum þingkosningum í landinu í janúar næstkomandi. Þetta hefur gerst á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1546, sem felur írösku bráðabirgðastjórninni meðal annars að ákveða hversu lengi sé þörf á aðstoð fjölþjóðlegs herliðs í landinu.

Íslensk stjórnvöld eru sem fyrr á þeirri skoðun að rétt hafi verið að gera innrásina í Írak, enda var hún gerð til að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem Íraksstjórn hafði virt að vettugi. Ekki varð lengur við það búið. Þá voru almennt uppi grunsemdir í garð Íraksstjórnar varðandi framleiðslu gereyðingarvopna. Ferill Íraksstjórnar innanlands og utan var eindregið með þeim hætti að ekki mátti treysta orðum hennar og hún var ógn við nágrannaríki og við frið og stöðugleika í heiminum.

Enginn getur með sanngirni haldið öðru fram en að íraska þjóðin sé betur sett nú en undir Saddam Hussein og öllum hlýtur að vera ljós þýðing þess að það takist að koma á lýðræði og stöðugleika í Írak. Hinn kosturinn er að óstöðugleiki og öngþveiti nái yfirhöndinni með hrikalegum afleiðingum fyrir írösku þjóðina, Mið-Austurlönd og fyrir baráttuna gegn hryðjuverkaöflunum.

Átökin í Írak snúast í rauninni ekki um dvöl erlends herliðs í landinu heldur um hvort komið verði á lýðræðislegri stjórnskipan. Þeir sem úthella blóði Íraka og myrða gísla vita að það sem gerist í Írak getur haft áhrif um öll Mið-Austurlönd. Þeir vilja ekki lýðræðislega stjórnarhætti þar eða annars staðar. Meinfýsnishlakkandi úrtölumenn víða um heim hafa einblínt á erfiðleikana sem vissulega er við að etja í Írak og virðast telja deilur um aðdraganda innrásarinnar skipta meira máli en frelsi og framtíðarvonir Íraka. Allir sem í einlægni bera hag írösku þjóðarinnar fyrir brjósti ættu að leggjast á eitt í stuðningi við bráðabirgðastjórnina sem leitast við að tryggja öryggi, lýðræði og endurreisn landsins.

Íslendingar hafa lagt af mörkum til mannúðar- og endurreisnarstarfs í Írak. Eins og kunnugt er unnu sérfræðingar á vegum Íslensku friðargæslunnar vel metið starf við að eyða jarðsprengjum og öðrum sprengjum í suðurhluta Íraks síðastliðinn vetur. Nú er verið að kanna með hvaða hætti Ísland gæti tekið þátt í þjálfun íraskra öryggisveita á vegum NATO í Írak.

Nýlegar forsetakosningar í Afganistan voru mikill áfangi í viðleitni til að tryggja lýðræði í landinu. Þrátt fyrir hörmungar undanfarinna ára og afar takmarkaða lýðræðishefð flykktust Afganir á kjörstað og ekkert varð úr hótunum Talíbana um árásir. Staða Karzai forseta hefur styrkst mjög og reynsla fengist sem nýtist við undirbúning þingkosninga. Miklu skiptir að samfélag þjóðanna veiti Afganistan þann pólitíska, efnahagslega og hernaðarlega stuðning sem þörf krefur.

Öryggisveitir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan eru í landinu í umboði Sameinuðu þjóðanna samkvæmt ályktunum öryggisráðsins. Eins og kunnugt er hafa liðsmenn Íslensku friðargæslunnar farið með stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl frá því í byrjun júní síðastliðinn. Frá upphafi var ljóst að þetta yrði umfangsmesta og áhættusamasta friðargæsluverkefni sem Íslendingar hefðu tekist á hendur. Verkefnið hefur gengið vel og eiga íslensku friðargæsluliðarnir hrós skilið fyrir frábær störf við erfiðar aðstæður. Þegar stjórn flugvallarins færist í hendur annars aðildarríkis Atlantshafsbandalagsins á næsta ári kemur til greina að Ísland leggi í staðinn af mörkum liðsmenn til annarra friðargæsluverkefna í Afghanistan.

Svæðisbundin átök og spenna ráða nokkru um starfssvæði Íslensku friðargæslunnar en liðsmenn hennar eru nú við störf í Afganistan, Sri Lanka, Bosníu-Hersegóvínu og Kosóvó. Það er ánægjulegt að sjá hversu fljótt og vel hefur tekist að byggja upp skilvirka sveit friðargæsluliða sem leggja af fúsum og frjálsum vilja af mörkum til öryggis og velferðar annarra þjóða þrátt fyrir erfiðar aðstæður og hættur.

Því miður hefur ekki dregið úr átökum og spennu fyrir botni Miðjarðarhafs. Í morgun barst sú frétt að Yasser Arafat, forseti Palestínumanna væri allur. Ég votta palestínsku þjóðinni og ríkisstjórninni samúð mína vegna andláts hans. Það verður að vona að eftirmenn hans vinni í þágu friðar með því að gera nauðsynlegar umbætur heima fyrir og hefja eindregna baráttu gegn hryðjuverkaöflum. Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur tekið frumkvæði að brottflutningi Ísraelsmanna frá Gaza-svæðinu þrátt fyrir harða pólitíska andstöðu heima fyrir. Þetta gæti orðið fyrsta skrefið að nýjum samningaviðræðum um brottflutning frá hernumdum svæðum á Vesturbakkanum og stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Frumkvæði Sharons er í andstöðu við afstöðu og gjörðir leiðtoga Palestínumanna sem hafa hvorki ráðist gegn samtökum hryðjuverkamanna né heldur unnið bug á langvarandi spillingu innan palestínsku sjálfsstjórnarinnar. Nú er orðið ljóst að uppreisn Palestínumanna sem hófst fyrir fjórum árum hefur unnið málstað og hagsmunum þeirra gríðarlegt tjón. Því skiptir miklu að vopnin verði lögð niður, lýðræðislegar kosningar verði fljótlega haldnar á palestínsku sjálfsstjórnarsvæðunum og aftur verði sest að samningaborði. Fyrir áratug lagði Ísland fram fé til endurreisnar á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum og vilji er til þess, verði stillt til friðar, að taka höndum saman með öðrum ríkjum til þess að styðja Palestínumenn í efnahagslegu tilliti.

Það eru víðar erfið vandamál í þessum heimshluta. Þannig er staðreynd að stjórnvöld í Íran hafa villt um fyrir Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni hvað varðar tilgang og framkvæmd kjarnorkuáætlunar sinnar. Fjallað verður um óheilindi íranskra stjórnvalda í þessu efni á fundi framkvæmdarráðs stofnunarinnar síðar í þessum mánuði og þá kemur væntanlega í ljós hvort þarf að vísa málinu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það þarf ekki að fjölyrða um áhrif þess á þetta svæði og reyndar heiminn allan ef Íranir framleiddu kjarnavopn. Önnur alvarleg hætta í þessum efnum lýtur að Norður Kóreu sem árum saman hefur legið undir rökstuddum grun um að vinna að smíði kjarnavopna.

Á undanförnum árum hafa orðið hamfarir af mannavöldum í Súdan. Allt bendir til þess að súdönsk stjórnvöld hafi att sveitum glæpamanna gegn íbúum Darfúr-héraðs og tekist með morðum og eyðileggingu að stökkva milljónum manna á flótta. Það vekur áleitnar spurningar að samfélag þjóðanna skuli ekki hafa brugðist með ákveðnari hætti við stórfelldum þjóðernishreinsunum og meintu þjóðarmorði. Þær spurningar sem vakna hljóta meðal annars að varða trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skipaði í fyrra starfshóp sextán háttsettra manna til að fjalla um stöðu og starfshætti samtakanna í breyttu öryggisumhverfi. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili áliti til framkvæmdarstjórans í byrjun desember næstkomandi og að umfjöllun aðildarríkja fylgi í kjölfarið á næsta ári. Hluti af þessu áliti mun væntanlega felast í tillögum um umbætur á stofnanakerfi Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal breytingar á skipan öryggisráðsins. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil hvatt til umbóta innan samtakanna og sérstaklega lýst stuðningi við þessa viðleitni framkvæmdarstjórans. Í þessu samhengi hefur Ísland hvatt til fjölgunar fastra og kjörinna sæta í öryggisráðinu og telur að Brasilía, Indland, Japan og Þýskaland og eitt Afríkuríki eigi að fá fast sæti. Vinna að framboði Íslands til öryggisráðsins heldur áfram. Ég hyggst á næstunni eiga samráð við utanríkismálanefnd Alþingis um frekari undirbúning framboðsins.

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum leitast við að fylgjast með og taka þátt í umfjöllun um mannréttindamál á alþjóðavettvangi. Virðing fyrir mannréttindum er forsenda varanlegs friðar og mannréttindamálin eru eitt af þeim viðfangsefnum í utanríkisstefnunni sem gefa þarf meiri gaum á komandi árum. Á núverandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland lýst áhyggjum vegna mannréttindabrota í ýmsum ríkjum. Þess má geta að í nýlegri atkvæðagreiðslu um viðskiptabann Bandaríkjanna gagnvart Kúbu var flutt atkvæðaskýring af hálfu Íslands þar sem kúbönsk stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir mannréttindabrot.

Oft heyrast viðvörunarraddir um að það kunni ekki góðri lukku að stýra ef Vesturlönd reyni að flytja út lýðræði – eins og sumir kalla það - eða troða því upp á fólk. Auðvitað má ekki fara fram með offorsi en málið er einfalt. Mannréttindi eru algild. Reynslan sýnir að lýðræði er forsenda friðar og velferðar og enginn á að vera feimin við að halda þeirri skoðun að þeim sem hún á erindi við. Í því felst hvorki hroki né skammsýni. Þvert á móti. Og víða um heim, meðal annars í Mið-Austurlöndum er vaxandi hreyfing fólks sem vill umbætur og lýðræði að vestrænni fyrirmynd. Lýðræðisríki eiga ótrauð að hvetja til gagnrýni og umræðu um lýðræði og mannréttindi þar sem þörf krefur.


Herra forseti,


Þróunarsamvinna hefur á undanförnum árum orðið sífellt veigameiri þáttur í íslenskri utanríkisstefnu sem sést af því að verulegur hluti útgjalda vegna utanríkismála á rætur að rekja til þróunarsamvinnu. Opinber framlög til þróunarsamvinnu hafa næstum fjórfaldast á síðastliðnum áratug og hefur ríkisstjórnin sett það markmið að stighækka þessi framlög þannig að árið 2009 nái þau 0,35% af vergri landsframleiðslu. Í framhaldi af þessari ákvörðun vinna utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands að stefnumótun til næstu fjögurra ára um hvernig auknum framlögum verði varið með sem skilvirkustum hætti í þágu þurfandi þjóða.

Ísland hefur um langt skeið notið góðs af fjölbreyttu samstarfi í norðanverðri Evrópu. Þar ber auðvitað hæst samstarf Norðurlanda á ýmsum sviðum. Það er til marks um styrkleika norræns samstarfs að það þrífst vel þrátt fyrir miklar breytingar í Evrópu og það má jafnvel halda því fram að mikilvægi þess hafi aukist. Það stafar af því að Norðurlönd tengjast samtökum og stofnunum í Evrópu með misjöfnum hætti en þurfa áfram að gæta sameiginlegra hagsmuni. Samráð og samstaða þeirra hefur þannig öðlast nýjan tilgang.

Í lok þessa mánaðar lýkur tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Á formennskutímanum hefur verið unnið að því að gera félagslegum og efnahagslegum þáttum í starfsemi ráðsins sömu skil og umhverfisþættinum. Með þessum hætti hafa íslensk stjórnvöld viljað stuðla að því að Norðurskautsráðið tækist á við sjálfbæra þróun í stærra samhengi. Það má vel una við árangurinn af formennsku Íslands. Eftir nokkra daga verður til að mynda lögð fram yfirgripsmikil skýrsla um mannlíf á norðurslóðum sem íslensk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir og mun hún renna stoðum undir öfluga starfsemi ráðsins er lýtur að lífsskilyrðum fólks á svæðinu. Annað dæmi af störfum ráðsins er skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.


Herra forseti,


Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi fyrir tíu árum. Það er til marks um þá víðtæku sátt sem skapast hefur um samninginn á þessum tíma að á síðasta þingi var frumvarp utanríkisráðherra um staðfestingu stækkunar EES-samningsins samþykkt samhljóða hér á Alþingi. Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins með aðild Mið- og Austur-Evrópuríkja markaði merkan áfanga í sögu samningsins. Sú farsæla niðurstaða sem náðist um stækkun EES er til marks um að EES-samningurinn nýtur víðtæks pólitísks stuðnings af hálfu Evrópusambandsins.

Evrópusambandið hefur þegar lokið aðildarviðræðum við Búlgaríu og stefnir á að ljúka viðræðum um aðild Rúmeníu fyrir árslok. Má því búast við að samningar um aðild þessara ríkja að Evrópusambandinu verði undirritaðir á næsta ári. Þá verður ekkert að vanbúnaði að hefja viðræður um aðild þeirra að Evrópska efnahagssvæðinu.

Í síðasta mánuði undirrituðu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna nýja stjórnarskrá þess. Nú tekur við fullgilding hennar í aðildarríkjunum og mörg þeirra hafa áform um að leggja hana í dóm kjósenda. Íslensk stjórnvöld munu áfram fylgjast grannt með framvindu mála í Evrópusambandinu. Það er meðal annars hlutverk nefndar um Evrópumál sem nú er að störfum undir forystu dóms- og kirkjumálaráðherra, og skipuð er fulltrúum allra þingflokka. Nefndinni er ætlað að greina aðalatriði mála og helstu staðreyndir um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og auðvelda þannig umræður um Evrópumálin á réttum forsendum.

Það eru engin ný sannindi að okkur Íslendingum farnast best þegar við eigum þess kost að stunda frjáls og óheft viðskipti við aðrar þjóðir. Af þeim sökum hafa íslensk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að treysta viðskiptatengsl okkar við önnur ríki. Aðild Íslands að EFTA hefur reynst heilladrjúg í þeim efnum. Nú eru í gildi þrettán fríverslunarsamningar sem EFTA-ríkin hafa gert við önnur ríki. Til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja í ríkjum sínum hafa EFTA-löndin gætt þess að vera samstiga Evrópusambandinu í fríverslunarviðræðum. Stundum hefur EFTA líka verið skrefinu á undan ESB. Þannig hefjast í janúar fríverslunarviðræður við Suður-Kóreu og vonir standa til að viðræður geti hafist við Tæland strax á næsta ári. Fyrir dyrum standa og fundir með bandarískum stjórnvöldum í því skyni að ræða samskipti EFTA-ríkjanna og Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu. Einnig er áhugi á að treysta frekar samskiptin við Japan og Rússland.

Ísland leggur mikla áherslu á það starf sem er unnið hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Um þessar mundir fara fram viðræður innan stofnunarinnar um aukið frjálsræði í alþjóðaviðskiptum. Næstu mánuðir munu ráða miklu um niðurstöðu viðræðnanna en í þeim er lögð sérstök áhersla á viðskiptahagsmuni þróunarlandanna. Vonir standa til þess að samkomulag liggi í aðalatriðum fyrir undir lok næsta árs. Jafnframt því að njóta ávinnings af lækkun eða afnámi tolla og ýmissa annarra viðskiptahindrana hjá öðrum ríkjum munu Íslendingar þurfa að takast á hendur skuldbindingar sem munu hafa áhrif hér á landi, einkum á sviði landbúnaðar.

Færeyingar og Grænlendingar eru okkar næstu nágrannar. Það er mikilvægt að styrkja enn frekar vináttuböndin og byggja upp öflugt net samskipta og samvinnu við þá. Fríverslunarsamningur sem stjórnvöld hafa gert við Færeyjar er liður í að styrkja vestnorræna samvinnu og tryggir ennfremur að einstaklingar og fyrirtæki njóti sömu réttinda í löndunum tveimur. Kapp verður lagt á að samningurinn verði fullgildur sem fyrst.

Aðild Íslands að fjölmörgum samningum sem um aukið frjálsræði í alþjóðaviðskiptum hefur stutt við útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði. Þannig hefur utanríkisviðskiptastefna ríkisstjórnarinnar skapað íslenskum fyrirtækjum hagstæð skilyrði. Utanríkisþjónustan verður að vera stöðugt vakandi yfir þörfum íslensks atvinnulífs. Lykilatriði er að hún geti brugðist hratt og örugglega við í stórum hagsmunamálum. Á undanförnum misserum hefur verið unnið að því að færa þjónustu sendiskrifstofanna nær atvinnulífinu með ýmsu móti. Í þessu efni er rétt að nefna að aukið samstarf utanríkisþjónustunnar og Útflutningsráðs hefur skilað góðum árangri. En betur má ef duga skal.

Þannig er til dæmis nauðsynlegt að tvíefla alla viðleitni til að kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn. Í því skyni þarf utanríkisþjónustan að auka samstarf sitt við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þau stjórnvöld sem fara með ferðamál. Hægt væri að byggja á grunni samstarfssamnings Útflutningsráðs og utanríkis-ráðuneytisins og eins er landkynningarverkefnið “Iceland Naturally” í Bandaríkjunum gott dæmi um þann árangur sem náðst getur með auknu samstarfi.


Herra forseti,


Mikilvægi auðlinda hafsins er samofið íslenskum utanríkishagsmunum. Nýting þeirra hefur lagt grunninn að velferð þjóðarinnar og verið aflvaki framfara í landinu. Markmið íslenskra stjórnvalda hefur annars vegar verið að tryggja full yfirráð yfir auðlindinni og hins vegar að tryggja sjálfbæra nýtingu hennar til framtíðar. Til að svo megi verða þurfa íslensk stjórnvöld að vera vakandi á verðinum, jafnt heima sem og á alþjóðlegum vettvangi. Umræða um málefni hafsins hefur aukist og þátttaka íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu starfi samhliða tekið breytingum. Vaxandi mengun, m.a. vegna aukinna efnahagsumsvifa, kröfur um fæðuöryggi og margföldun sjávarafla á heimsvísu undanfarna áratugi, hefur stuðlað að aukinni umfjöllun. Ríki heims hafa vaknað til vitundar um nauðsyn þess að vakta betur auðlindir hafsins.

Æ oftar eru brögð að því að alþjóðasamfélagið hlutist til um verndun og nýtingu fiskistofna og hafsvæða. Tillögur hafa komið fram um hnattræna fiskveiðistjórnun. Það gengur þvert á grundvallarhugsun íslenskra stjórnvalda um fullveldisrétt ríkja yfir auðlindum sínum og að stjórn auðlindanýtingar sé best borgið í höndum þeirra ríkja sem standi þeim næst. Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að gæta hagsmuna Íslands í þessum efnum og nýverið tókst að koma í veg fyrir að tillaga um hnattrænt bann við botnvörpuveiðum á úthafinu næði fram að ganga á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og beina málinu í réttan farveg, sem var að hvetja ríki og svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir til þess að bæta stjórn á slíkum veiðum.

Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin í ljósi ítrekaðra brota norskra stjórnvalda á Svalbarðasamningnum ákveðið að hefja undirbúning málssóknar gegn Noregi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Undirbúningurinn er á góðri leið og hefur meðal annars verið gengið frá ráðningu erlends sérfræðings til að rita ítarlega greinargerð fyrir stjórnvöld í þessu skyni. Jafnframt hafa verið haldnir tvíhliða samráðsfundir um Svalbarðamálið með ýmsum aðildarríkjum Svalbarðasamningsins og hafa viðkomandi ríki sýnt málinu mikinn áhuga.

Eins og Alþingi hefur áður verið greint frá þá er unnið að greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna til að styrkja tilkall Íslands til landgrunns utan 200 sjómílna á Reykjaneshrygg, á Hatton-Rockall-svæðinu og í Síldarsmugunni. Að frumkvæði íslenskra stjórnvalda fóru fram í Reykjavík haustið 2001 óformlegar viðræður fulltrúa Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur fyrir hönd Færeyja um Hatton-Rockall-málið. Næsti viðræðufundur verður haldinn síðar í þessum mánuði.


Herra forseti,


Þótt ávarp af þessu tagi taki einungis á því sem hæst ber í störfum utanríkisþjónustunnar um þessar mundir þá endurspeglar það engu að síður þá miklu breidd sem er í verkefnum hennar. Utanríkisþjónustan er óaðskiljanlegur þáttur í fullveldi Íslands og skiptir miklu að takist að nýta hana í þágu lands og þjóðar. Í þeim tilgangi hefur þjónustan verið efld á undanförnum árum. Það breytir því ekki að meta verður fjölda starfsmanna, staðsetningu sendiskrifstofa og framlög til verkefna erlendis í senn á grundvelli íslenskra hagsmuna á hverjum tíma og með mesta mögulega hagræðingu í huga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum