Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2008 Utanríkisráðuneytið

Miriam Makeba og Ísland

Sú frétt flaug um heiminn nýverið að suður-afríska söngkonan Miriam Makeba hefði látist skyndilega á Ítalíu 76 ára að aldri. Á Ítalíu hafði hún verið að halda einn af sínum “síðustu” tónleikum og í sönnum divu-stíl, því diva var hún, gekk hún hnarreist út af sviðinu og var öll.

Miriam Makeba var stórkostleg söngkona og ég átti því láni að fagna að heyra hana syngja nokkrum sinnum bæði á Íslandi og í Suður Afríku. Hún var farin að reskjast og fæturnir báru hana tæplega lengur, en röddin var enn mikil og seiðandi, augnaráðið ögrandi og mjaðmasveiflan virtist óháð lögmálum aldursins. Utan sviðs þurfti hún aðstoð til að ganga en á sviðinu var eins og hún endurfæddist og þar vildi hún vera. Hún var samkvæmt eigin yfirlýsingum löngu hætt að syngja og búin að halda marga kveðjutónleika, þar á meðal á Íslandi vorið 2006, en sviðið dró hana til sín, aftur og aftur.

Þessi kraftmikla kona var líka tákn. Hún var ung gerð útlæg frá heimalandi sínu, Suður Afríku, og söngvar hennar bannaðir þar. Hún lét ekki deigan síga, fór syngjandi um heiminn og barðist með tónlistinni og mjaðmasveiflunni gegn aðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda. Hún var ein af mörgum frelsishetjum blökkumanna í sunnanverðri Afríku, í liði með hetjum á borð við Nelson Mandela og Oliver Tambo. Hún var líka feministi og lét sig kjör kvenna miklu skipta. Viðurnefnið “Mama Afríka” var ekki úr lausu lofti gripið.

Fundum okkar bar saman á “kveðjutónleikum” hennar á Íslandi í maí 2006. Við tókum spjall saman eftir tónleikana og ræddum vítt og breitt um Afríku, einkum um stöðu kvenna. Ég komst að því að hún hafði stofnað heimili fyrir vegalausar stúlkur í Midrand, nálægt Jóhannesarborg. Heimilið tók á móti stúlkubörnum á aldrinum 11 til 18 ára sem drógu fram lífið á götunni við kynferðislega misnotkun, eiturlyf og annan ófögnuð. Á heimilinu fengu stúlkurnar húsaskjól og aðhlynningu, og var gefið færi á að sækja skóla og búa sig undir lífið sem sjálfstæðar ungar konur. Ég hreyfst af þessu framtaki og við bundumst fastmælum um að ég skyldi athuga hvort einhver flötur væri á að Ísland gæti komið heimilinu til aðstoðar, en rekstur þess var í járnum.

Það gekk eftir og þegar sendiráð Íslands í Suður Afríku var formlega opnað í febrúar 2007 tilkynnti utanríkisráðherra að íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og félagasamtök hefðu ákveðið að verja myndarlegri fjárhæð til heimilisins. Makeba var viðstödd athöfnina, hélt ræðu og þakkaði fyrir framlagið. Mér er minnisstætt að hún sagði að Íslendingar væru greinilega þjóð sem stæði við gefin loforð, það ætti ekki við um alla. Hún var klökk, heimilið var henni hjartans mál. Þessa var getið í öllum helst fjölmiðlum í Suður Afríku og síðan hefur nafn Miriam Makeba og Íslands verið tengt þar í landi.

Nokkurn tíma tók að leysa úr ýmsum lagalegum flækjum vegna afhendingar framlagsins og áttum við Makeba allnokkur samtöl vegna þess næstu mánuðina. Alltaf skein þakklæti hennar í gegnum tal okkar um lagakróka og alltaf enduðum við á að tala um nauðsyn þess að beina athyglinni enn frekar að stöðu kvenna í Afríku.

Framlagið var svo afhent Makeba við athöfn á heimilinu sjálfu í júlí síðastliðnum. Ég hafði þá gott tækifæri til að kynnast stúlkunum á heimilinu því Makeba lét bíða eftir sér eins og sannri divu sæmir. Og hafi ég þurft frekari vitnanna við þá komst ég að raun um hversu gott starf þetta heimili vinnur. Stúlkurnar voru komnar mislangt áleiðis eftir götuvistina en þær sem lengst voru komnar voru fullar bjartsýni á framtíðina, kraftmiklar ungar konur sem höfðu áttað sig á að með því að treysta á sjálfar sig voru þeim allir vegir færir. Þegar Makeba loks birtist var henni fagnað af stúlkunum með faðmlögum, söngi og dansi. Hún var sannarlega þeirra “Mama”.

Og nú er hún öll þessi stórbrotna kona. Ég kveð hana með þakklæti fyrir kynni sem hefðu mátt vera lengri og er glöð í hjarta yfir að vegir Íslands og hennar lágu saman með þessum hætti.

 

----------------------------

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

Höfundur er sendiherra Íslands í Noregi en var áður sendiherra í Suður Afríku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum