Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar NB8-ríkjanna lýsa áhyggjum af Hvíta-Rússlandi

Frá fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Borgarnesi í ágúst í fyrra - myndUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna lýsa yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Hvíta-Rússlandi í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í dag. Skorað er á stjórnvöld í Minsk að hætta að ofsækja stjórnarandstæðinga og virða frelsi og mannréttindi.

Í yfirlýsingunni láta ráðherrarnir í ljós sérstakar áhyggjur af ofbeldi og líkamsmeiðingum gagnvart mótmælendum í kjölfar fregna af misferli í forsetakosningunum sem haldnar voru í Hvíta-Rússlandi síðastliðinn sunnudag. Kosningarnar hefðu hvorki farið fram í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Hvíta-Rússlandi né staðist alþjóðleg viðmið um lýðræði og réttarríki. Þá hefðu þær hvorki verið frjálsar né sanngjarnar.

Utanríkisráðherrarnir skora í yfirlýsingunni á stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi að hætta að ofsækja pólitíska andstæðinga, láta lausa þá sem ranglega hafa verið handteknir og virða mannréttindi og frelsi. Enn fremur hvetja þeir stjórnvöld til að hefja án tafar raunverulegar pólitískar viðræður við stjórnarandstöðuna svo komist verði hjá frekara ofbeldi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, gagnrýndi framgöngu yfirvalda í Hvíta-Rússlandi gegn friðsömum mótmælendum í yfirlýsingu á Twitter í gær. Þar sagði hann að ekki væri hægt að líða að fólk sætti ofsóknum og ofbeldi fyrir að berjast fyrir grundvallarmannréttindum.

Lesa yfirlýsingu utanríkisráðherranna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum