Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2020 Utanríkisráðuneytið

Sumarlotu mannréttindaráðsins lokið

Sumarlotu mannréttindaráðsins lokið - myndUN Photo/Jean-Marc Ferré

Mannréttindaráðið lauk störfum á föstudag en vegna COVID-19 var starf ráðsins í þessari 44. lotu ráðsins með breyttu sniði. Þó fóru fram mikilvægar umræður m.a. um mannréttindaástandið á Filippseyjum, Sýrlandi og Hvíta-Rússlandi og ályktanir voru samþykktar um m.a. réttindi kvenna og friðsamleg mótmæli.

Einna hæst bar þó sameiginleg yfirlýsing Breta fyrir hönd 28 ríkja, þ.m.t. Íslands, um ástandið í Hong Kong þar sem lýst var áhyggjum af nýsamþykktri öryggislöggjöf og áhrifum hennar á mannréttindi í Hong Kong. Yfirlýsingin áréttaði einnig áhyggjur okkar af ástandinu í Xinjiang héraðinu í Kína og hvatti Kína til að veita mannréttindafulltrúa SÞ aðgang að svæðinu en Ísland hefur, ásamt öðrum ríkjum, áður lýst yfir áhyggjum af ástandinu í Xinjiang. Yfirlýsingin..

Vegna þeirra takmarkana sem COVID-19 setti á starf ráðsins þá tóku Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin (NB8) sig saman og fluttu 25 sameiginlegar ræður um allt frá ástandi mannréttinda í einstökum löndum til umræðu um málfrelsi, réttindi kvenna, barna og hinsegin fólks.

Ísland áréttað einnig áhyggjur af stöðunni í Mið-Austurlöndum og þá sérstaklega yfirlýstum áformum ísraelskra stjórnvalda um innlimun á hluta svæða Palestínumanna í umræðu um mannréttindaástandið í heiminum við Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúa SÞ. Hefur hún lýst sérstökum áhyggjum af áformum ísraelska stjórnvalda sem hún áréttaði að væru í bága við alþjóðalög og gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir mannréttindi Palestínumanna og á stöðugleika á svæðinu. Lýsti fulltrúi Íslands í umræðunni áhyggjum Íslands af þessum áformum og lagði áherslu á að ef þeim væri hrint í framkvæmd væri um brot á alþjóðalögum að ræða og slíkt myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir tveggja ríkja lausnina. Hvatti hann báða aðila að snúa aftur að samningaborðinu. Ræðan.

Ísland átti einnig þátt í sameiginlegri yfirlýsingu Úrúgvæ fyrir hönd 42 ríkja um áhrif COVID-19 faraldursin á hinsegin fólk í heiminum og mikilvægi þess að hafa þennan hóp í huga í viðbrögðum við faraldrinum. Skýrsla sérstaks fulltrúa mannréttindaráðsins um ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki vakti einnig athygli en skýrslan fjallar um alvarlegar afleiðingar bælingarmeðferða á hinsegin fólki (e. conversion therapy) en Danmörk tók þátt í umræðunni fyrir hönd NB8 ríkjanna en í ræðu Íslands áréttaði Harald Aspelund, fastafulltrúi Ísland í Genf andstöðu Íslands við slíkum meðferðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum