Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2020 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um mikilvægustu málefnin í viðræðum við Breta

Á fundi í gær komu aðalsamningamenn EES/EFTA ríkjanna og Bretlands sér saman um sameiginlegt umboð um málefnalista sem vilji er til þess að ná samkomulagi um. „Með þessu samkomulagi er skýr rammi settur utan um framtíðarviðræður okkar við Bretland. Ég er ánægður með að öll þau mál sem ég hef sett í forgrunn vegna útgöngu Bretlands úr EES samningnum eru hér á lista og kappkostað verður að ná farsælli niðurstöðu hvað þau varðar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Málefnin sem áhersla verður lögð á að ná samkomulagi um eru þessi: fríverslunarsamningar, samhæfing almannatryggingakerfa, loftferðar- og flugöryggismál, lögreglusamstarf, för fólks og búseturéttindi, menntamál, rannsóknir og nýsköpun, og samstarf á sviði einkamála.

Að sögn Þóris Ibsen aðalsamningamanns Íslands er þessi málefnalisti afrakstur fjölda óformlega funda samningsaðila og nær utan um öll þau mál sem liggja til grundvallar samningsmarkmiðum Íslands, sem samþykkt voru af ríkisstjórn í janúar síðastliðinn. „Flest þeirra falla undir fríverslunarviðræðurnar, sem munu ná bæði til vöru- og þjónustuviðskipta. Í umboðinu er því haldið opnu að semja sérstaklega um þau mál sem háð eru EES samningnum, náist ekki samningar á milli Bretlands og ESB fyrir áramót,“ segir Þórir.

Fundurinn í gær var annar fundur aðalsamningamanna EES/EFTA ríkjanna og Bretlands og fór fram með fjarfundabúnaði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum