Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Áhersla á að miðla af reynslu Íslands í jafnréttismálum

Utanríkisráðherra flutti erindi í tenslum við ráðstefnuna - mynd

Jafnrétti til útflutnings var yfirskrift ráðstefnu sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir í samvinnu við Uppbyggingarsjóð EES, Portúgal og Noreg, í gær og í dag. Um 120 manns frá 20 ríkjum tóku þátt í ráðstefnunni og fimm hundruð fylgdust með streymi frá ráðstefnunni. Markmiðið var að kynna íslenska sérþekkingu á sviði jafnréttismála sem nýst getur í þágu íbúa og samfélaga í þeim fimmtán ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins(EES) sem njóta styrkja úr Uppbyggingarsjóði EES.

„Með þátttöku í Uppbyggingarsjóði EES leggur Ísland fram sinn skerf til samstarfs Evrópuríkja um umbætur og uppbyggingu í fimmtán ríkjum EES,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem flutti erindi í tengslum við ráðstefnuna. „Við höfum einstaka reynslu og þekkingu á því hvernig jafnrétti hefur styrkt samfélagið og efnahaginn og viljum gjarnan miðla þeirri reynslu. Það sama gildir um jarðhitanýtingu, sem er líklega eitt það mikilvægasta sem við höfum fram að færa í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.“

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er annars vegar að draga úr félagslegu og efnahagslegu misræmi innan EES svæðisins og hins vegar að efla tvíhliða samstarf milli EFTA-ríkjanna innan EES og viðtökuríkjanna fimmtán. Ríkin fimmtán eru Búlgaría, Eistland, Grikkland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland.

Að undanförnu hefur utanríkisráðuneytið lagt áherslu á að kynna sjóðinn fyrirtækjum, félagasamtökum og öðrum þeim sem geta tekið þátt í samstarfsverkefnum styrktum af sjóðnum. Á síðasta tímabili, 2009-2014, tóku180 íslenskir aðilar þátt í 390 verkefnum í þeim 15 löndum sem sjóðurinn styrkti.

Íslensk stjórnvöld leggja nú sérstaka áherslu á verkefni á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta og jafnréttismála. Um 10% styrkfjár sjóðsins er nýtt til að byggja upp frjáls og óháð félagasamtök í styrkþegaríkjunum eða um 150 milljón evra. Þá hefur aukin áhersla verið lögð á tvíhliða verkefni með hverju viðtökuríkjanna, en um 2% af framlagi til sérhvers ríkis er nú varið til slíkra verkefna. Með þessu skapast tækifæri til að efla enn frekar samskipti Íslands og einstakra ríkja.

Dagskrá ráðstefnunnar
Verkfærakista
Streymi og önnur gögn frá ráðstefnunni
Myndband um ráðstefnuna á Facebook-síðu Uppbyggingarsjóðs EES

 

 
  • Kristín Árnadóttir, jafnréttissendiherra ávarpaði ráðstefnuna. - mynd
  • Áhersla á að miðla af reynslu Íslands í jafnréttismálum - mynd úr myndasafni númer 2
  • Áhersla á að miðla af reynslu Íslands í jafnréttismálum - mynd úr myndasafni númer 3
  • Áhersla á að miðla af reynslu Íslands í jafnréttismálum - mynd úr myndasafni númer 4

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum