Hoppa yfir valmynd
31. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Jafnrétti til útflutnings

Í dag og á morgun efnir utanríkisráðuneytið til ráðstefnunnar Jafnrétti til útflutnings í samvinnu við Uppbyggingarsjóð EES, Portúgal og Noreg. Ætlunin er að kynna hvað íslensk samtök og stofnanir hafa upp á að bjóða, þ.e. hvaða leiðir hafa verið farnar og hvaða aðferðir þróaðar sem skilað hafa árangri í jafnréttisbaráttunni hér á landi og gætu nýst í samstarfsríkjum Uppbyggingarsjóðs EES.

Ráðstefnan miðar einnig að því að leiða saman íslenskra aðila og aðila innan þeirra fimmtán ríkja sem falla undir Uppbyggingarsjóð EES sem stuðlað geti að samstarfsverkefnum þar sem íslensk sérþekking getur nýst. Ríkin fimmtán eru Búlgaría, Eistland, Grikkland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland.

Lykilfólk í þeim fimmtán ríkjum sem um ræðir hefur boðað komu sína og alls verða 20 ríki á ráðstefnunni. Þátttakendur verða um 120 manns.

Verkfærakista frá helstu samtökum og stofnunum sem vinna hérlendis að jafnréttismálum verður nýtt sem grunnur til kynningar á íslenskri sérþekkingu og lausnum, bæði á ráðstefnunni og á fundum sem haldnir eru í sjóðsstjórnum.

Ráðstefnan verður haldin í Hellisheiðarvirkjun og Veröld – Húsi Vigdísar og Vigdís Finnbogadóttir verður heiðursgestur ráðstefnunnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum