Hoppa yfir valmynd
17. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Þýskalands fögnuðu 20 ára afmæli sendiráðanna í Berlín

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Þýskalands gróðursetja kirsuberjatréð. Frá vinstri: Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra setti í morgun afmælishátíð í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá formlegri opnun norrænu sendiráðsbygginganna í Berlín. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands bar hæst hernað Tyrklands í Sýrlandi og öryggis- og varnarsamstarf Evrópu og Bandaríkjanna. 

Tuttugu ár eru um þessar mundir liðin frá því að sendiráðaklasi Norðurlandanna í Berlín var tekin í notkun. Af því tilefni sóttu allir utanríkisráðherrar Norðurlanda hátíðardagksrá og þar sem Ísland fer nú með formennsku í norrænu samstarfi kom það í hlut Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að setja hana. Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, afhenti við þetta tækifæri gjöf þýskra stjórnvalda til Norðurlandanna, fuglakirsuberjatré sem verður gróðursett á lóð sendiráðanna vestan við koparband sendiráðsbygginganna.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funduðu svo í menningarmiðstöð sendiráðanna í Berlín ásamt Michael Roth, aðstoðarutanríkisráðherra í þýsku ríkisstjórninni. Á dagskránni voru mál sem eru efst á baugi á alþjóðavettvangi um þessar mundir, ekki síst hernaðaraðgerðir tyrkneskra stjórnvalda í Sýrlandi en jafnframt voru til umræðu samvinna Evrópu og Bandaríkjanna á sviði varnar- og öryggismála. Að fundi sínum loknum efndu ráðherrarnir til stutts fréttamannafundar.

„Það er einstakt á heimsvísu að fimm fullvalda ríki taki sig saman um að reka sendiráð undir sama þaki og ef til vill er þetta eitt skýrasta dæmið um þau traustu vináttubönd sem binda Norðurlöndin saman. Sem ein heild stöndum við afar sterk á alþjóðavettvangi en um leið viðurkennum við sérkenni hvers annars. Þessi staðreynd kristallast einmitt í óopinberu slagorði sendiráðanna hér: Hvert fyrir sig en þó saman,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson og vísar þar til kjörorðsins Jeder für sich und doch gemeinsam.

Síðar í dag hefst svo sérstök menningardagskrá þar sem hæst ber opnun sýningarinnar „OCEAN DWELLERS - Art, Science and Science Fiction“. Um er að ræða samsýningu listamanna alls staðar af Norðurlöndunum er þemað hennar samspil fólks og hafsins. Tveir íslenskir listamenn taka þátt, þær Rúrí og Hulda Rós Guðnadóttir.

Á morgun verður efnt til málþings þar sem „bláa hagkerfið“ er í brennidepli, með þátttöku sérfræðinga frá öllum Norðurlöndunum og Þýskalandi auk fulltrúa Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í tilefni afmælisins hefur verið gefið út kort, „Norden in Berlin“, þar sem finna má flest allt sem tengja má við Norðurlöndin í Berlín.

Auk sendiráðaklasans í Berlín starfrækja Norðurlöndin þar menningarmiðstöðina Felleshus eða „Norræna húsið“ sem er opið almenningi alla daga ársins. Þar efna Norðurlöndin saman eða hvert fyrir sig til viðburða af öllu tagi. Um eitt hundrað þúsund gestir sækja Norræna húsið í Berlín heim árlega. 

Byggingin sjálf er löngu orðin að kennileiti í borginni og græna koparbandið sem umlykur svæðið fer ekki fram hjá vegfarendum. Svæðið sjálft og menningarmiðstöðin eru verk finnsk-austurrísku arkítektaskrifstofunnar Berger+Parkkinen. Hvert sendiráð er teiknað af innlendum arktítektum, það íslenska af Pálmari Kristmundssyni og hefur það sérkenni að vera klætt líparíti úr Hamarsfirði og sem mótvægi, bárujárnsöldur úr steinsteypu.

Samstarf Norðurlandanna í Berlín er þó ekki nýtt af nálinni heldur byggist á sameiginlegum menningararfi, sögu og gildum og er eðlilegt framhald af áratugalöngu samstarfi m.a. á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og ráðherraráðsins.

  • Frá vinstri: Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, Guðlaugur Þór Þórðarson, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum