Andlát erlendis

Andlát erlendis

Andlát ættingja eða vina reynist ástvinum ávallt þungbær reynsla. Dauðinn gerir ekki boð á undan sér og getur því borið að garði á meðan dvalist er erlendis, ýmist við leik eða störf. Þegar svo ber undir þarf að hafa ýmis atriði í huga sem almennt koma ekki til skoðunar þegar aðili fellur frá á Íslandi t.d. um það hvernig haga skuli samskiptum við erlenda útfararþjónustu og hvernig stað sé að heimflutningi hins látna til Íslands.  

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir ýmsa aðstoð þegar andlát á sér stað erlendis og hér á eftir er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um þjónustuna sem stendur til boða.

Borgaraþjónustan bendir sérstaklega á að útfararstofur erlendis búa iðulega yfir nákvæmustu og nýjustu upplýsingum um hvernig hægt er að bera sig að. Útfararstofur geta því veitt ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar í þessum efnum.

Hvað er til ráða?

- Andlát erlendis – ættingi meðferðis

Andlát þarf að skrá í því ríki þar sem það á sér stað. Upplýsingar um hvar á að skrá andlát er unnt að nálgast hjá fararstjórum, lögregluyfirvaldum á staðnum, í sendiráði Íslands í við­kom­andi ríki eða hjá ræðismanni Íslands þar sem ekkert sendiráð er til staðar.

Æskilegt er að eftirfarandi upplýsingar fylgi tilkynningu:

·        Fullt nafn hins látna.

·        Fæðingardagur og fæðingarstaður.

·        Upplýsingar um vegabréfsnúmer, útgáfustað og útgáfudag þess.

·        Upplýsingar um nánasta aðstandanda hins látna.

Hafi hinn látni þjáðst af smitsjúkdómi á borð við lifrabólgu eða alnæmi þarf að tilkynna slíkt yfirvöldum á staðnum svo unnt sé að grípa til varúðarráðstafana.

- Andlát erlendis – aðstandendur á Íslandi

Aðstandendum kunnugt um andlát

Í þeim tilvikum sem aðstandendur á Íslandi fá upplýsingar um andlát frá þriðja aðila, t.d. frá ferða­skrifstofu eða fjölmiðlum, þá getur viðkomandi haft samband við borgaraþjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins sem aðstoðar og leiðbeinir á þann hátt sem þörf er á.

Aðstandendum ekki kunnugt um andlát

Þegar íslenskt sendiráð eða ræðismaður Íslands móttekur tilkynningu um andlát íslensks ríkis­borg­ara erlendis er það tilkynnt ríkislögreglustjóra. Hlutverk embættis ríkislögreglustjóra er, eftir atvikum í samstarfi við prest, að tilkynna aðstandendum á Íslandi um andlátið þegar þeim er ókunnugt um það. 

Ef aðstandendur eru ekki staðsettir á Íslandi er óskað eftir aðstoð sendiráðs eða ræðismanns Íslands þar sem vitað er að aðstandandi dveljist. Hlutverk sendiráðs eða ræðismanns er að hlutast til um að aðstandendum verði tilkynnt um andlátið.

Borgaraþjónustan leitast við að upplýsa aðstandendur um andlát svo skjótt sem auðið er.

Hvað getur borgaraþjónustan gert?

Borgaraþjónustan getur leiðbeint og aðstoðað nánustu aðstandendur hins látna og leitast við að tryggja að hagsmuna þeirra sé gætt að öllu leyti.

Borgaraþjónustan getur leiðbeint og veitt upplýsingar í tengslum við flutning hins látna til Íslands.

Borgaraþjónustan getur leiðbeint og aðstoðað aðstandendur við val á útfararstofum þegar jarðsetja á hinn látna erlendis. Sendiráð eða ræðismaður getur sinnt milligöngu í samskiptum við útfararstofu er­lendis þegar jarðsett er og aðstandendur eru ekki viðstaddir.

Borgaraþjónustan getur leiðbeint og aðstoðað aðstandendur þegar bálför fer fram erlendis og flytja þarf duftker til Íslands að henni lokinni.  

Við sérstakar aðstæður getur borgaraþjónusta haft milligöngu um millifærslu fjármuna frá vinum eða ættingjum á Íslandi til aðstandenda eða annarra erlendis.

Þegar aðstandendur telja að dauðsfall hafi átt sér stað með grunsamlegum hætti þá er hægt að leiðbeina og upplýsa hvernig vekja skal á því athygli við yfirvöld í viðkomandi ríki. Í þeim til­vik­um er hægt að veita grundvallarupplýsingar um uppbyggingu löggæslu og réttarkerfis í við­kom­andi ríki. Hefji yfirvöld rannsókn þá er  hægt að hafa milligöngu um samskipti í tengslum við hana. Í einhverjum tilvikum er þó ekki hægt að fá uppgefnar upplýsingar frá erlendum stjórnvöldum. Í þeim tilvikum er eftir atvikum talið ráðlagt að að­standendur leiti sér lagalegrar aðstoðar í viðkomandi ríki. Borgaraþjónustan getur veitt upp­lýsingar um lögmenn á staðnum sem og um túlkaþjónustu ef þess er þörf.

Aðstandendur sem leita aðstoðar borgaraþjónustunnar þegar dauðsfall erlendis hefur borið að höndum, geta reitt sig á að starfsmenn hennar sinni störfum sínum af nærgætni og virðingu.

Hvað getur borgaraþjónustan ekki gert?

Borgaraþjónustan getur ekki tekið þátt í að greiða kostnað við bálför, heimflutning hins látna eða jarða­för erlendis.  Af þeim sökum er mælt með því að einstaklingar ferðist aldrei án ferðatryggingar sem taki til tjóns á erlendri grund, þ.m.t. dauðsfalls. Í einhverjum tilvikum geta tryggingar tekið til ýmiss kostnaðar sem tengist andláti erlendis. Er því einnig mælt með því að hugað sé að þeim atriðum áður en haldið er af landi brott.

Borgaraþjónustan getur ekki rannsakað dauðsföll sem hafa orðið með grunsamlegum hættu. Slíkar rannsóknir eru alfarið í höndum lögregluyfirvalda á staðnum. Borgaraþjónustan getur hins vegar haft milligöngu í samskiptum við yfirvöld og við þá upplýsingaöflum sem heimiluð er.

Borgaraþjónustan getur ekki veitt þér lögfræðilega ráðgjöf en getur bent á lögmenn sem geta tekið það að sér.