Borgaraþjónusta

Borgaraþjónusta

Árið um kring gætir borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hagsmuna og öryggis íslenskra ríkisborgara erlendis og veitir þeim ýmis konar aðstoð s.s. þegar slys, veikindi eða andlát ber að höndum á erlendri grundu.

Borgaraþjónustan stendur vaktina allan sólarhringinn í síma 354 - 545 9900 árið um kring.

Aðstoðin er veitt af starfsmönnum borgaraþjónustu í utanríkisráðuneytinu, sendiskrifstofum Íslands erlendis og ólaunuðum ræðismönnum Íslands um allan heim. Auk þessa hefur utanríkisþjónustan samstarf við utanríkisþjónustur annarra Norðurlanda á vettvangi borgaraþjónustu.

Athugasemd til ferðamanna

Undanfarin misseri hefur það margítrekað komið fyrir að Íslendingar á leið til útlanda hafa orðið fyrir því að þeir lenda í vandræðum vegna gildistíma vegabréfa, er synjað um landgöngu eða synjað um að fara um borð í flugvélar, ef vegabréf þeirra gilda ekki að minnsta kost 6 mánuðum lengur en áætluð dvöl í viðkomandi ríki.

Utanríkisráðuneytið hvetur alla þá sem eru á leið til ríkja utan EES svæðisins að huga að því að fá nýtt vegabréf, ef minna en sex mánuðir eru eftir af gildistíma gamla vegabréfsins þar sem búast má við að ríki geri kröfu um og setji sem skilyrði fyrir landgöngu að vegabréf gildi a.m.k. 6 mánuði fram yfir áætlaðan dvalartíma í viðkomandi ríki.

Nánari upplýsingar um vegabréf, umsóknir, endurnýjun og framlengingu má finna á vegabref.is eða hjá Þjóðskrá sem fer með útgáfu vegabréfa.

Framlengd vegabréf eru ekki lengur gild ferðaskilríki skv. reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar


Íslenskir ríkisborgarar geta sjálfir haft samband beint við sendiráð, ræðisskrifstofur og ólaunaða ræðismenn og er upplýsingar um staðsetningu og símanúmer þeirra að finna á vef ráðuneytisins. Á heimasíðum sendiráðanna undir "Embassies jurisdiction" er að finna upplýsingar um umdæmi þeirra. Sem dæmi hefur sendiráð Íslands í Washington fyrirsvar gagnvart fjölmörgum ríkjum Suður og Mið Ameríku og getur því aðstoðað íslenska ríkisborgara í þeim heimshluta. Sendiráð Íslands í Kína hefur fyrirsvar fyrir fjölmörgum ríkjum Asíu, auk Nýja Sjálands og Ástralíu. Um 250 ólaunaðir ræðismenn Íslands um allan heim eru reiðubúnir til aðstoðar íslenskum ríkisborgurum og er upplýsingar um staðsetningu og símanúmer þeirra að finna á heimasíðum sendiráðanna á ofangreindri vefsíðu.


Til baka Senda grein