Evrópusamvinna

Evrópusamvinna

Ísland er nátengt öðrum ríkjum Evrópu í sögulegu, pólítísku, efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Ríki Evrópusambandsins (ESB) eru mikilvægasta markaðssvæði Íslands og meirihluti Íslendinga sem sækir sér menntun og atvinnu erlendis leitar þangað. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hefur síðan 1994 verið ein megin undirstaða þessara tengsla.

Regluverk innri markaðar Evrópu hefur því mikil áhrif á Íslandi og skrifstofa Evrópumála hefur það hlutverk að tryggja sem best hagsmuni íslenskra borgara, fyrirtækja og stofnana við framkvæmd EES-samningsins í samráði við Alþingi, ráðuneyti, stofnanir og samtök ólíkra hagsmunaaðila.

Hlé hefur verið gert á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Utanríkisráðuneytið mun láta gera sérfræðiúttekt á stöðu viðræðanna og þróun mála innan ESB og hefur samið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um gerð þeirrar úttektar. Hún verður tekin til umræðu í þinginu og kynnt fyrir þjóðinni eins og fram kom í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sl. vor.