Hoppa yfir valmynd

Fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína

Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrituðu hinn 15. apríl 2013 í Peking fríverslunarsamning milli Íslands og Kína.

Helsti ávinningur fríverslunarsamningsins við Kína er að hann kveður á um niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslands og ryður þar með úr vegi hindrunum í útflutningi til þess mikilvæga og vaxandi markaðar. 

Hér er að finna nánari upplýsingar um samninginn, tilurð hans og meginefni, þar á meðal spurningar og svör. 

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína

Samningur undirritaður: 15. apríl 2013

Gildistaka samnings: Hefur tekið gildi

Viðaukar:

Önnur gögn:

Spurningar og svör

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína er viðbót við þéttriðið net fríverslunarsamninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert um allan heim, flestir á vettvangi EFTA. Í samfloti við önnur EFTA ríki, þ.e. Sviss, Noreg og Liechtenstein, hefur Ísland gert 29 samninga við fjörtíu ríki og ríkjasambönd.

Þá hefur Ísland gert tvíhliða samning við Færeyjar, svonefndan Hoyvíkur-samning, sem tók gildi 2006, en hann er mun víðtækari en hefðbundnir fríverslunarsamningar og líkist fremur EES-samningnum, sem er umfangsmesti samningur sem Ísland hefur gert og felur í sér töluvert meira og víðtækara samstarf en nokkur fríverslunarsamningur.

Hægt er að fræðast meira um fríverslunarsamninga Íslands með því að smella hér.

Þarf flutningur vöru að vera beint á milli Íslands og Kína til að varan njóti tollfrelsis samkvæmt fríverslunarsamningnum?

Í 33. gr. samningsins kemur fram að tollfríðindi samkvæmt samningnum gildi um þær vörur sem eru fluttar beint frá Kína til Íslands. Réttur til niðurfellingar eða lækkunar tolla glatast því ef vara er fyrst flutt inn og tollafgreidd, t.d. til ESB-ríkis og þaðan hingað til lands.

Þó eru bæði umflutningur vöru og uppskipting vörusendinga heimilar. Umflutningur þýðir að vörusending hefur viðkomu í höfn eða á flugvelli, þar sem hún er undir eftirliti tollyfirvalda og færð úr einu fari í annað, hvort sem um er að ræða sendingu með skipi eða flugvél. Uppskipting þýðir að heimilt er að taka úr sendingu (þá úr gámi eða öðrum sendingarleiðum) þann hluta sem ætlaður er til sendingar til Íslands eða Kína og áframsenda hann. Nauðsynlegt er að þetta gerist undir eftirliti tollyfirvalda, í viðurkenndri tollvörugeymslu, frílager eða svipuðum geymslustöðum.

Þegar fríverslunarviðræður eru annars vegar eru menn ekki skipaðir í sérstaka nefnd, heldur er aðalsamningamaður valinn af utanríkisráðherra. Þegar samið er á vettvangi EFTA skipta ríkin með sér verkum og aðalsamningamaður kemur í hlut eins ríkis, t.d. var sendiherra Íslands í Genf aðalsamningamaður eða talsmaður EFTA í samningum við Kanada og Taíland.

Þegar samningaviðræður hófust við Kína var Gunnari Snorra Gunnarssyni þáverandi sendiherra Íslands í Kína falið að leiða viðræðurnar. Honum til fulltingis voru síðan sérfræðingar utanríkisráðuneytis og sérfræðingar annarra ráðuneyta og undirstofnanna þeirra. Í viðræðum sem þessum mæðir mikið á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, efnahags- og fjármálaráðuneyti, velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti, þó að til kasta annarra ráðuneyta geti einnig komið. Undirstofnanirnar eru helst Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Tollstjóri og Einkaleyfastofa.

Þegar fríverslunarviðræður við Kína voru teknar upp að nýju haustið 2012 var Bergdísi Ellertsdóttur sendiherra í utanríkisráðuneytinu, og fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA í Brussel, falið að leiða þær. Þannig má segja að misjafnt sé hverjir skipa nefndina eftir því um hvað er samið og hvaða sérfræðinga þarf að kalla til hverju sinni.

Viðræðurnar voru samstarfsverkefni sem utanríkisráðuneytið leiddi en að ferlinu komu sérfræðingar flestra ráðuneyta þ.m.t. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, velferðarráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk sérfræðinga ýmissa stofnanna t.d. frá Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Tollstjóra og Einkaleyfastofu.  Þá var náið samráð haft við utanríkismálanefnd Alþingis.

Allt frá því að fríverslunarviðræðurnar hófust sýndu íslensk fyrirtæki viðræðunum mikinn áhuga, m.a. útflytjendur á sjávarafurðum, vatni, heilsuafurðum og ýmsum tæknivörum. Innflytjendur á kínverskum varningi hafa eðli máls samkvæmt einnig lagt áherslu á gerð fríverslunarsamnings.

Í aðdraganda samninga og meðan á samningum stóð frá árinu 2007 átti utanríkisráðuneytið fjölmarga fundi og samráð við fyrirtæki og ýmsa hagsmunaaðila. Fjöldi fyrirspurna bárust um viðskipti við Kína, óskir um niðurfellingu tolla og aðstoð við ýmis konar vandkvæði sem upp hafa komið í viðskiptum. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að svara og koma til móts við óskir og kröfur fyrirtækja og gæta hagsmuna þeirra í viðræðunum.

Vöruviðskipti við Kína hafa aukist mjög undanfarinn áratug. Heildarvöruviðskipti ríkjanna á tímabilinu 2001 til 2012 voru á bilinu 7 til 44 milljarðar íslenskra króna, mest árið 2008 en sú aukning var nánast öll tilkomin vegna sölu flugvéla frá Íslandi til Kína. Hlutfall vöruviðskipta við Kína af heildarvöruviðskiptum Íslands við útlönd hefur einnig aukist töluvert. Árið 2001 námu heildarvöruviðskipti Íslands og Kína um 1,7% af heildarvöruviðskiptum Íslands við útlönd en það hlutfallið fór mest upp í 4,5% árið 2008. Töluvert meira af vörum er flutt inn frá Kína heldur en út en hlutfallið er yfirleitt í kringum 1:9 í verðmætum talið og vöruviðskiptajöfnuður því neikvæður allt tímabilið, um 4,8 til 29,7 milljarða króna.

Bráðabirgðatölur fyrir 2012 gefa til kynna að innflutningur á vörum frá Kína sé tæplega sexfaldur á við útflutning Íslands til Kína. Ísland er hins vegar ekki eitt um að vera með neikvæðan viðskiptajöfnuð við Kína. Þannig er háttað um viðskipti flestra ríkja við Kína. Jafnframt má þess geta að halli er á vöruviðskiptum Íslands við ríki eins Bandaríkin og Noreg.

Utflutningur-til-Kina-(milljardar-krona)

Vöruútflutningur Íslands til Kína hefur aukist í krónum talið frá árinu 2001 en þá nam hann um 905 milljónum króna. Vöruúútflutningur til Kína árið 2012 nam rúmum 7,6 milljörðum króna. Árið 2011 nam vöruútflutningur til Kína um 5,4 milljörðum króna. Aukningin á verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi til Kína á milli áranna 2011 og 2012 er um 40 af hundraði.

Helstu útflutningsvörur Íslands til Kína eru sjávarafurðir sem eru yfirleitt meira en 90% af heildarvöruútflutningi. Á tímabilinu var mest flutt út af karfa og grálúðu. Einnig hefur verið flutt út nokkuð af loðnu, rækju, skelfiski og botnfiski. Þá var makríll stærsti undirflokkur útfluttra sjávarafurða árið 2011 fyrir andvirði um 1,8 milljarða króna. Bráðabirgðatölur fyrir árið 2012 benda til þess að karfi, grálúða og makríll muni vega þyngst af útflutningsvörum Íslands til Kína. Hlutur landbúnaðarafurða í útflutningi til Kína var lítill sem enginn en á síðustu árum hefur hafist útflutningur á sauðfjárafurðum. Í flokki iðnaðarvöru var m.a. flutt út kísiljárn og rafeindavogir.

Innflutningur-fra-Kina-(milljardar-krona)

Vöruinnflutningur frá Kína nemur yfirleitt um 80–90% af heildarvöruviðskiptum Íslands og Kína. Hann hefur nær fimmfaldast að verðmæti á síðasta áratug og nam rúmum 35 milljörðum króna árið 2011 miðað við 6 milljarða árið 2002. Hlutdeild innflutnings frá Kína af heildarvöruinnflutningi Íslands hefur einnig aukist töluvert. Árið 2002 var hann 2,9% af heildarinnflutningi en var kominn upp í 7,4% árið 2011.

Stærstu innflutningsvöruflokkarnir eru ýmsar unnar vörur á borð við húsgögn, fatnað og skó, vélar og samgöngutæki t.d. tölvur, rafeinda- og fjarskiptabúnaður. Einnig flytur Ísland inn margvíslegar framleiðsluvörur t.d. járn og málm ásamt ólífrænum kemískum efnum til efnaiðnaðar.

Kína hefur gert fríverslunarsamninga við eftirtalda: Hong Kong og Makaó (2004), Samband Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) (2005), Síle (2006), Pakistan (2007), Nýja-Sjáland (2008), Singapúr (2009), Perú (2010),  Kosta Ríka (2011) og Sviss (2013), Ástralía (2015), Suður-Kórea (2015) og Georgía (2017).

Kínverjar voru ekki reiðubúnir til þess þegar eftir því var leitað árin 2005-2006. Sviss samdi við Kínverja um fríverslun skömmu á eftir Íslandi, árið 2013, og Noregur á í tvíhliða viðræðum við Kína um fríverslunarsamning.

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína, líkt og allir aðrir fríverslunarsamningar, koma til viðbótar við þau viðskiptakjör og þær viðskiptareglur sem samið er um innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fríverslunarsamningurinn við Kína felur t.d. í sér að tollar á vörum frá Íslandi (og öðrum ríkjum sem gert hafa fríverslunarsamninga við Kína) verði lægri en tollar á vörum frá öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem ekki hafa gert fríverslunarsamning.

Samningaviðræður um fríverslunarsamning milli Íslands og Kína hófust með  samningalotu í apríl 2007. Áður hafði farið fram viðamikill undirbúningur milli embættismanna. Hér innanlands var haft víðtækt samráð við hagsmunaðila um gerð fríverslunarsamningsins. Önnur samningalota var haldin í júní 2007, þriðja í október sama ár og loks sú fjórða í apríl 2008. Þegar fjórðu lotunni sleppti lágu eiginlegar fríverslunarviðræður milli ríkjanna niðri allt til ársins 2012 sökum dvínandi áhuga Kínverja, og voru ýmsar ástæður upp gefnar. Nokkuð bar þá í milli í samningaviðræðunum og önnur ríki höfðu bæst í hóp þeirra ríkja sem vildu semja við Kína, m.a. félagar Íslands úr EFTA, Sviss og Noregur.

Málið komst á nýtt stig í apríl 2012 með opinberri heimsókn Wen Jiabao, þáverandi forsætisráðherra Kína, til Íslands. Meðal niðurstaðna forsætisráðherra Íslands og Kína var að flýta viðræðum um fríverslunarsamninginn. Sammæltust þau um að leiða þær til lykta innan árs. Við tók undirbúningur fyrir frekari samningalotur og áður en lota var haldin í Reykjavík fyrir jól 2012 voru haldnir nokkrir undirbúningsfundir embættismanna. Sjötta og síðasta lota samningaviðræðna var svo haldin í Peking dagana 22.-24. janúar 2013. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína undirrituðu samninginn 15. apríl 2013.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að ljúka samningaviðræðum um fríverslun við Kína. Gerð hefur verið grein fyrir málinu með reglubundnum hætti, t.d. á Alþingi í skýrslum utanríkisráðherra og í svörum við fyrirspurnum alþingismanna. Ítarlegt samráð hefur verið haft við utanríkismálanefnd Alþingis, aðila vinnumarkaðarins og fyrirtæki sem stunda viðskipti við Kína eða hafa hug á að stofna viðskipti í Kína. Utanríkisráðuneytið setti upp sérstakan vef með upplýsingum um samninginn.

Í samningnum er að finna hefðbundin ákvæði fríverslunarsamninga um lausn deilumála sem upp kunna að koma milli samningsaðila. Ef ágreiningur er uppi varðandi túlkun, framkvæmd og beitingu samningsins er reynt að finna með samráði aðilanna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við. Ef sú leið þrýtur getur hvor aðili um sig farið fram á stofnun gerðardóms til að skera úr um  ágreininginn. Til þess hefur aldrei þurft að koma í þeim fríverslunarsamningum sem Ísland hefur gert.

Í mörgum þeim fríverslunarsamningum sem EFTA-ríkin hafa gert eru tilvísanir í inngangsorðum þar sem samningsríkin árétta skuldbindingar þær sem settar eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu SÞ. Frá upphafi fríverslunarviðræðna við Kína lagði Ísland áherslu á að slíkar tilvísanir yrðu í fríverslunarsamningnum, og var sú afstaða áréttuð í hverri lotu samningaviðræðnanna. Kínversk stjórnvöld gátu ekki fallist á þetta og vísuðu til þess að engar tilvísanir séu í mannréttindamál í þeim fríverslunarsamningum sem Kína hefur gert hingað til.

Markmið Íslands var að ganga ekki frá samningum fyrr en viðunandi niðurstaða hefði fengist hvað tilvísanir í mannréttindamál áhrærir. Ákveðið var að samhliða gerð fríverslunarsamningsins yrði gerð sérstök yfirlýsing þar sem meðal annars er kveðið skýrt á um virðingu beggja ríkja fyrir sáttmála SÞ, að þau framfylgi hugsjónum mannréttindayfirlýsingar SÞ og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem þau eiga aðild að, sem og að ríkin muni efla samstarf sitt um vinnumál. Yfirlýsingin fjallar um aukið tvíhliða samstarf ríkjanna og á grundvelli þess fari fram reglubundið pólitískt samráð sem mun m.a. fela í sér viðræður um mannréttindamál.

Með yfirlýsingunni er gengið  lengra en með almennum tilvísunum í sáttmála SÞ og mannréttindayfirlýsingu SÞ eins og venjan er í fríverslunarsamningum sem Ísland á þegar aðild að.   

Auk þess er í samstarfskafla samningsins ákvæði um að bæta samskipti og samvinnu milli Íslands og Kína á sviði vinnumála.   

Ísland gerði þær kröfur í upphafi viðræðna, þ.e. árið 2007, að samningurinn myndi einnig fela í sér aukið frelsi milli ríkjanna á opinberum útboðsmarkaði. Kína var ekki tilbúið til þess því það hefur enn ekki gerst aðili að samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup. Aðilar lýsa því hins vegar yfir í samningnum að samstarf skuli aukið og að hægt verði síðar að taka upp viðræður um skuldbindingar á þessu sviði. Af sömu ástæðu hefur enginn fríverslunarsamningur sem Kína hefur gert geymt skuldbindingar um opnun á opinberum útboðsmarkaði.

Stundum er í fríverslunarsamningum komið á samstarfi milli samningsaðila um ýmis mál sem aðallega varða fríverslunarsamninginn en geta þó einnig varðað önnur málefni. Í fríverslunarsamningi Íslands og Kína er vísað til þess víðtæka samstarfs sem er á milli ríkjanna á hinum ýmsum sviðum. Má þar nefna vaxandi samstarf á sviði vísinda og tækni, norðurslóðamála og mennta- og menningarmála. Samningurinn kveður einnig á um að ríkin skuli auka samstarf sitt á sviði umhverfisverndar og vinnumála.

Samningurinn gerir ekki ráð fyrir samræmdri framkvæmd samkeppnisreglna samningsaðila, líkt og gert er í EES-samningnum. Viðurkennt er hins vegar að samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækja kunni að hindra þann ávinning sem annars hlýst af samningnum. Aðilar takast á hendur að beita samkeppnislögum sínum í því skyni að vinna gegn viðskiptaháttum sem hamla samkeppni. Kveðið er á um samvinnu og samstarf milli samkeppnisyfirvalda og að ágreiningsmál sem upp kunna að koma verði leyst með tvíhliða samráði milli ríkjanna.

Markmið hugverkaréttar er að tryggja hagsmuni skapandi greina, svo sem hönnuða, forritara og listamanna, og einnig rétt fyrirtækja sem vinna að nýsköpun og tæknilegri framþróun. Til hugverka teljast til dæmis höfundaréttur, vörumerki sem auðkenna vöru og þjónustu, einkaleyfi og hönnun. Ísland og Kína eiga aðild að fjölmörgum alþjóðlegum samningum á sviði hugverkaréttar, til dæmis samningnum um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS) á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fríverslunarsamningurinn undirstrikar alþjóðlegar skuldbindingar ríkjanna á sviði hugverkaverndar.

Vernd hugverkaréttinda er eitt af markmiðum fríverslunarsamningsins. Það kemur fram í ákvæði samningsins um markmið hans og þar staðfesta samningsaðilar vilja sinn til að tryggja vernd hugverkaréttinda í samræmi við skuldbindingar samningsaðila samkvæmt alþjóðasamningum á þessu sviði. Í sérstökum kafla samningsins staðfesta samningsaðilar mikilvægi verndar hugverkaréttinda til að efla efnahagslega og félagslega þróun. Þeir staðfesta jafnframt skuldbindingar sínar samkvæmt tilteknum alþjóðasamningum. Einnig er þar að finna ákvæði um mögulegt samstarf og gagnkvæm upplýsingaskipti aðila hvað varðar vernd hugverkaréttinda. Þá er kveðið á um rétt samningsaðila til beinna tvíhliða samskipta í því skyni að leysa hvers kyns vandamál sem upp kunna að koma á sviði hugverkaréttinda. Samningurinn skapar því grundvöll fyrir aukið samstarf við Kína um hugverkavernd.

Í fríverslunarviðræðunum við Kína var ekki samið um fjárfestingar. Einungis er gert ráð fyrir að fjárfestingasamningur ríkjanna frá 1994 muni halda sér en hann kveður á um gagnkvæma vernd fjárfestinga sem til er stofnað og vísað er til þess samnings í sérstökum kafla fríverslunarsamningsins. Samningurinn mun því ekki hafa breytingar í för með sér á möguleikum á fjárfestingum Kínverja á Íslandi eða á möguleikum Íslendinga til fjárfestinga í Kína. Engar sjálfstæðar heimildir til fjárfestinga eða vilyrði um rýmkun reglna þar að lútandi eru að finna í samningnum.

Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands er engin bein fjárfesting kínverskra aðila á Íslandi (bein fjárfesting telst þegar erlendur aðili á tíu prósent eða stærri hlut í innlendu fyrirtæki). Þó ber að nefna að Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga tilheyrir Elkem samsteypunni sem er í eigu kínverska fyrirtækisins China National Bluestar.

Samningurinn tiltekur þær þjónustugreinar sem undir hann falla. Sérstakar skuldbindingar ríkjanna á sviði þjónustuviðskipta eru tilgreindar í viðauka VII við fríverslunarsamninginn. Nokkur svið eru alfarið undanskilin samningnum, svo sem opinber þjónusta, heilbrigðis- og menntunarþjónusta. Í fríverslunarsamningum er aldrei samið um frjálsa för fólks í anda EES-samningsins og Schengen samstarfsins, og heldur ekki um að það að ræða í þessum samningi.

Eins og margir aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert á undanförnum árum nær samningurinn við Kína einnig til þjónustuviðskipta.

Skuldbindingar Íslands byggja alfarið á tilboði sem Ísland lagði fram innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) árið 2005. Er það jafnframt í samræmi við það sem Ísland hefur samið um í fríverslunarviðræðum á vettvangi EFTA á undanförnum árum. Á sama hátt byggja kínversk stjórnvöld á tilboði sem þau lögðu fram innan WTO.

Skuldbindingar Íslands í þjónustuviðskiptum grundvallast ávallt á íslenskum lögum, þ. á m. lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga. Samningurinn tiltekur þær þjónustugreinar sem undir hann falla. Nokkur svið eru alfarið undanskilin, svo sem opinber þjónusta, heilbrigðis- og menntunarþjónusta. Í fríverslunarsamningum er aldrei samið um frjálsa för fólks í anda EES-samningsins og Schengen samstarfsins.

Nei, þetta er ekki svona einfalt. Í samningum um fríverslun milli ríkja samþykkja aðilar að fella niður tolla af vörum sem framleiddar eru innan samningssvæðisins. Uppruni vörunnar ræður því hvort hún nýtur fríðindameðferðar á grundvelli fríverslunarsamningsins. Upprunareglur eru þar af leiðandi veigamikill þáttur fríverslunarsamninga.  Þær skýra hvaða skilyrði vara þarf að uppfylla til þess að geta talist  upprunnin á Íslandi eða Kína. Upprunareglur samningsins fyrir iðnaðarvörur fela í sér víðtæka möguleika til að framleiða upprunavörur úr hráefnum frá öðrum ríkjum. Upprunareglur fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarvörur eru hins vegar strangari og að meginstefnu gerð krafa til þess að varan sé að fullu upprunnin í landi samningsaðila. Þar fyrir utan þarf að vera um að ræða bein viðskipti milli landanna tveggja og vörurnar skulu sendar beinum flutningi (umflutningur mögulegur). Hins vegar geta vörur sem fluttar eru frá öðrum löndum, sem ekki eiga aðild að samningnum aldrei átt rétt á niðurfellingu tolla í samræmi við ákvæði samningsins.

Í sérstökum kafla fríverslunarsamningsins er kveðið á um reglur hvað þetta varðar

Líkt og í öðrum fríverslunarsamningum er gert ráð fyrir að Ísland felli niður tolla á öllum vörum, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum, einkum kjötvörum og mjólkurafurðum. Þess má geta að 70% af tollalínum í íslensku tollskránni bera almennt engan toll fyrir, svo í þeim tilvikum verður engin breyting á tollum. Niðurfelling á tollum getur leitt til lækkaðs vöruverðs til neytenda, auk þess sem fyrirtæki geta fengið ódýrari aðföng til vinnslu.

Fríverslunarsamningar leiða óhjákvæmilega til þess að ríkin sem þá gera verða af tolltekjum. Áætlað hefur verið að tolltekjur af vörum sem upprunar voru í Kína hafi verið um 2 milljarðar króna árinu árinu 2011. Ekki er hægt að fullyrða hvort tekjutap ríkissjóðs vegna samningsins komi til með að nema jafn hárri fjárhæða og tekjurnar gefa til kynna því upprunareglur samngsins kveða á um að vara glati rétti til fríðindameðferðar hafi hún verið tollafgreidd inn á yfirráðasvæði annars ríkis en sé vara eingöngu í umflutningi undir tolleftirliti glatast réttindi ekki. Verulegur hluti af viðskiptum við Kína hefur umkomu í öðru landi á leið sinni til Íslands þó ekki sé vitað hve hátt hlutfall varnings er tollafgreiddur í viðkomulandinu né hversu hátt hlutfall fari í gegnum viðkomuland undir tolleftirliti.

Þróunin undanfarna áratugi hefur verið í þá átt að innflutningstollar skipta æ minna máli í tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Samningar Íslands við helsta viðskiptasvæðið, EFTA-ríkin og Evrópusambandið, höfðu mest áhrif í þessa átt. Hátt hlutfall tolltekna af kínverskum vörum í heildartolltekjum ríkissjóðs skýrist því ekki síst af því að ekki er fyrir að fara tolltekjum af vörum sem fluttar eru inn frá EES-ríkjunum, nema að takmörkuðu leyti. Í aðild Íslands að alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) birtist ekki síður sú stefna stjórnvalda að afnema hindranir í viðskiptum, þ.m.t. með lækkun eða niðurfellingu tolla. Gert er ráð fyrir að aukin milliríkjaviðskipti við Kína, og óbeinar tekjur ríkisins af þeim, vegi upp á móti minnkandi tolltekjum.

Markmið utanríkisviðskiptastefnu Íslands allar götur frá 1970 með aðildinni að EFTA hefur verið að lækka eða fella niður tolla í viðskiptum milli landa. Ísland, ásamt hinum EFTA-ríkjunum hefur komið sér upp þéttriðnu neti fríverslunarsamninga og horfur eru á að samningum í því neti eigi enn eftir að fjölga því nú er samið við ríki eins og Indland, Indónesíu og Malasíu. Þegar samningum við þessi ríki er lokið mun Ísland líka fella niður tolla á þeirra vörum.

Fríverslunarsamningur getur haft umtalsverða þýðingu. Fríverslunarsamningar snúast ekki síst um það að fella niður eða lækka tolla á vörum. Eins og í öðrum fríverslunarviðræðum lagði Ísland áherslu á að tollar féllu niður á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga. Sjávarafurðir hafa að jafnaði verið 90% af útflutningi Íslands til Kína. Algengir tollar á þeim eru á bilinu 10-12% en fara þó upp í 17%. Í langflestum tilfellum er gert ráð fyrir að tollar falli niður þegar að samningurinn tekur gildi. Dæmi um aðrar vörur sem fluttar hafa verið út til Kína eru rafeindavogir og kísiljárn.

Tollar á nokkrum vörutegundum munu falla niður í áföngum, á 5 eða 10 árum. Sem dæmi má nefna að tollar á heilfrystum þorski og ýsu, sem bera í dag 10% og 12% toll, munu falla niður á fimm ára aðlögunartíma. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur hingað til ekki verið mikill útflutningur á þessum vörum til Kína. Tollar á sæbjúgum sem bera 10% toll falla einnig niður á fimm ára aðlögunartíma.

Þegar tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður eykst samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja til muna á kínverskum markaði en Ísland á í harðri samkeppni við önnur ríki um útflutning til Kína.

Að meginstofni til er samningurinn byggður upp að fyrirmynd og með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur þegar gert með öðrum aðildarríkjum EFTA. Fríverslunarsamningur Íslands og Kína inniheldur kafla um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur, fjárfestingar, hugverkavernd, samkeppnismál, samvinnu á ýmsum sviðum, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Í samningnum eru jafnframt ýmis ákvæði um önnur mál, s.s. tæknilegar reglur, ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis og dýra og plantna, verndarráðstafanir og undirboð, svo eitthvað sé nefnt. Nánari útlistun á einstökum kafla samningsins má sjá á þessum vef.
Samningurinn tók gildi 1. júlí 2014 að lokinni fullgildingu og staðfestingu beggja ríkja.

Markmið fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki er að bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að viðkomandi mörkuðum með því að draga úr eða afnema viðskiptahindranir. Gerð fríverslunarsamninga er liður í því að tryggja alþjóðlega samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs til lengri tíma. Af þeim sökum hefur Ísland gert fríverslunarsamninga við fjölda ríkja í gegnum EFTA, auk tvíhliða samnings við Færeyjar, og sækist almennt eftir fríverslun við önnur ríki.

Þetta á ekki síst við um Kína sem er fjölmennasta ríki heims. Ísland er fyrsta Evrópuríkið til að ljúka gerð fríverslunarsamnings við Kína. Íslenskir útflytjendur, eins og aðrir, horfa til þess gríðarlega stóra markaðar sem þar er að þróast. Áætlað er að fólk í millistétt í Kína telji í dag yfir 300 milljónir manna. Eðli markaðarins í Kína er því að gjörbreytast og þróast ört í sömu átt og markaðir í hinum vestræna heimi.

Síðast uppfært: 5.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum