Hoppa yfir valmynd
29. september 2015 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Gunnar Bragi hjá SÞ
GBS-inequality

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tekur í vikunni þátt í störfum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York, en 70 ár eru liðin frá því Sameinuðu þjóðirnar voru settar á fót.

Í gær var utanríkisráðherra viðstaddur opnun allsherjarþingsins og í morgun ávarpaði hann viðburð um jafnari framtíð fyrir alla og baráttuna gegn ójafnrétti og mismunun. Í máli sínu lagði Gunnar Bragi áherslu á að uppræta hvers kyns ójafnrétti og tilgreindi kynjamisrétti og kynbundið ofbeldi sérstaklega. Hvatti hann karlmenn um heim allan til að leggja átakinu HeforShe lið, en rúmlega 9000 íslenskir karlmenn hafa þegar ljáð nafn sitt við átakið. Þá greindi ráðherrann frá þeirri fyrirætlan stjórnvalda að skipuleggja fleiri “rakarastofur” innan alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að í því augnamiði virkja karlmenn í jafnréttisbaráttunni.

Einnig átti utanríkisráðherra tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Barbados og Sameinuðu arabísku furstadæmanna þar sem skrifað var undir loftferðasamninga við ríkin tvö. Eru loftferðasamningar Íslands við önnur ríki nú um 90 talsins. Einnig átti utanríkisráðherra fund með utanríkisráðherra Andorra þar sem málefni Evrópu voru efst á baugi. Þá funduðu Gunnar Bragi og José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), um málefni hafsins, sjálfbæra landnýtingu og jafnréttismál.

Í vikunni verður, í tengslum við allsherjarþingið, fundað í hópi utanríkisráðherra Norðurlandanna og meðal EFTA ríkja. Einnig munu utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda með hópi ráðherra úr Karabíahafinu og Mið-Ameríku. Þá eru fyrirhugaðir fleiri tvíhliða fundir og viðburðir sem utanríkisráðherra mun ávarpa. Ræða utanríkisráðherra í allsherjarþinginu er fyrirhuguð á föstudaginn nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum