Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2015 Utanríkisráðuneytið

Niðurstaða þriðju ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar í Addis Ababa

Gunnar Bragi flytur stefnuræðu Íslands í Addis Ababa
Gunnar-Bragi-flytur-stefnuraedu-Islands-i-Addis

Á miðvikudagskvöld samþykktu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna niðurstöðuskjal þriðju ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar sem lauk í gær í Addis Ababa í Eþíópíu. Niðurstaðan felur í sér alþjóðlegt samkomulag um fjármögnun þróunar sem stuðli að hagvexti og félagslegri þróun með tilliti til umhverfisverndar. Skjalinu er því ætlað að vera stefnumótandi í fjármögnun þróunar, fjárlagagerð og fjárfestingu í þróunarríkjunum, hvort sem er í ríkisfjármálum þeirra, einkafjárfestingum eða alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Niðurstaðan er víðtæk og tekur m.a. til skatta, fjárfestingaumhverfis, ólöglegra fjármagnsflutninga, alþjóðaviðskipta og samvinnu á sviði tæknimála svo eitthvað sé nefnt. Þá er í skjalinu lögð áhersla á mikilvægi fjárfestinga sem leggi grunninn að sjálfbærni, vinni gegn fátækt og hungri og stuðli að almennri velsæld, sérstaklega þeirra sem minnst mega sín.

Utanríkisráðherra segist sáttur við niðurstöðuna enda endurspeglist helstu áherslur Íslands í textanum. Meðal þeirra má nefna mikilvægi þess að fátækustu ríkin njóti stærri hluta þróunarframlaga; áherslu á að tillit sé tekið til kynjajafnréttis við stefnumótun; nauðsyn þess að nýta og greiða aðgang allra að endurnýjanlegri orku; sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, bæði á landi og sjó; og að takast þurfi á við ósmitbæra sjúkdóma.

Samningaviðræðurnar hafa staðið frá ársbyrjun og undir lokin voru það helst skattamál sem ríkin greindi á um. Þróunarríkin börðust fyrir því að uppfæra skattanefnd Sameinuðu þjóðanna en hún er skipuð 25 skattasérfræðingum alls staðar að úr heiminum sem skipaðir eru af aðalframkvæmdastjóra. Mörg vestræn ríki voru mótfallin þessum breytingum þar sem OECD fer með alþjóðleg skattamál aðildarríkja stofnunarinnar en að auki býðst öllum þróunarríkjum að starfa með þeim 127 ríkjum sem nú þegar eru meðlimir Alþjóðlega vettvangsins um gagnsæi og upplýsingaskipti í skattamálum (Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes). Svo fór að starfsdagar nefndarinnar verða tvöfaldaðir, auknir fjármunir munu renna til hennar og nefndarmeðlimir munu áfram starfa í eigin umboði, skipaðir af framkvæmdastjóra.

Niðurstaðan

Sérstakt upplýsingaskjal þróunarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (DESA)

Ræða utanríkisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum