Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2015 Utanríkisráðuneytið

Gunnar Bragi flutti ræðu Íslands í Addis Ababa

Gunnar Bragi flytur stefnuræðu Íslands í Addis Ababa
Gunnar-Bragi-flytur-stefnuraedu-Islands-i-Addis

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í dag ræðu Íslands á þriðju alþjóðlegu ráðstefnunni um fjármögnun þróunarsamvinnu sem haldin er i Addis Ababa 13 - 16 júlí. 

Á ráðstefnunni í Addis er fjallað um með hvaða hætti eigi að fjármagna sjálfbæra þróun m.a. með tilliti til aukinnar fjáröflunar innanlands í þróunarríkjunum, mikilvægi einkafjármagns og fjárfestingaumhverfis sem og alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þá er einnig fjallað um með hvaða hætti ráðstafa skuli fjármunum, bæði opinberu fé og einkafjármagni, til að tryggja að þróunin verði sjálfbær og nái til allra, sérstaklega þeirra fátækustu.

Í samræmi við áherslur Íslands í þróunarsamvinnu hefur Ísland lagt áherslu á að stórt hlutfall þróunaraðstoðar þurfi að renna til minnst þróuðu ríkjanna og á nauðsyn margfeldisáhrifa þróunaraðstoðar. Mikil tækifæri felast í að nýta framlög á skilvirkan hátt í samstarfi við einkageirann og alþjóðastofnanir. 

Ísland hefur einnig beitt sér fyrir mikilvægi fjármögnunar kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna, sjálfbærri nýtingu hafsins, endurnýjanlegrar orku og landgræðslu. 

Í ræðu sinni lagði Gunnar Bragi áherslu á mikilvægi baráttu gegn fátækt og hungri í fátækustu ríkjum heims. Gunnar Bragi greindi frá því að staða Íslands væri önnur en margra annarra vestrænna ríkja þar sem Ísland hafi áður verið þróunarríki og þróun okkar megi m.a rekja til sjálfbærar nýtingu hafsins, endurnýjanlegrar orku og landgræðslu og því séu þetta meðal áherslusviða Íslands í þróunarsamvinnu. Utanríkisráðherra sagði frá ofangreindum áherslum Íslands í viðræðunum og mikilvægi fjármögnunar þeirra bæði með opinberum framlögum og einkafjárfestingum. Umfjöllun ráðherra um mikilvægi fjármögnunar kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna vakti töluverða athygli. Þá kom fram í máli ráðherra að taugasskaði falli undir rannsóknir og styrki á sviði heilbrigðismála.

Til þess að vekja sérstaka athygli á fjármögnun til landgræðslu hélt Ísland í gær málstofu um mikilvægi landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar fyrir sjálfbæra þróun. Viðburðurinn var haldinn i samstarfi við Namibíu, Katar, skrifstofu eyðimerkurssáttmálans, UNDP, Biovision, og Landgræðsluskóla HSÞ. Meðal þátttakenda i pallborðsumræðum voru Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla HSÞ og Hr. Mulugeta Sebhatleab Tesfay, háskólakennari frá Eþíópíu og fyrrum nemi landgræðsluskólans. Þau kynntu mikilvægi þekkingaruppbyggingar í landgræðslu og áhrif hennar á þróun landgræðslu í Eþíópíu. 

Ræða utanríkisráðherra 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum