Hoppa yfir valmynd
22. júní 2015 Utanríkisráðuneytið

Samskipti EFTA við Suður- og Norður-Ameríku rædd á ráðherrafundi EFTA

EFTA ráðherrar

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sat í dag ráðherrafund EFTA sem haldinn var í Liechtenstein. Samskipti EFTA við Suður- og Norður-Ameríku voru ofarlega á baugi á þessum ráðherrafundi. Ráðherrarnir ræddu m.a. um hvernig mætti þróa frekar viðskiptasamráð EFTA við Bandaríkin með hliðsjón af fríverslunarviðræðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þá lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með ákvörðun EFTA og Kanada um að kanna forsendur endurskoðunar á fríverslunarsamningi ríkjanna frá 2008 og ræddu um möguleikann á sambærilegri endurskoðun á fríverslunarsamningi EFTA-ríkjana og Mexíkó frá 2001.

Þá var einnig undirstrikað mikilvægi könnunarviðræðna EFTA og Mercosur, viðskiptabandalags Brasilíu, Argentínu, Paragvæ, Úrugvæ og Venesúela. Lagði utanríkisráðherra áherslu á að EFTA-ríkin nýttu þessar viðræður til að búa í haginn fyrir hugsanlegar fríverslunarviðræður EFTA og Mercosur.

Ráðherrarnir fóru yfir framvindu fríverslunarviðræðna EFTA við ríki í Asíu, en EFTA-ríkin eiga nú í fríverslunarviðræðum við Malasíu, Víetnam og Filippseyjar. Undirstrikuðu þeir jafnframt vilja EFTA til að ljúka fríverslunarviðræðum við Indland og fjölluðu um hvernig styrkja mætti tengsl EFTA við ríki í Afríku.

EFTA ráðherrarnir undirrituðu bókun um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA við ríki Mið-Ameríku og samstarfsyfirlýsingu við Ekvador auk þess sem þeir lýstu yfir vilja til að hefja fríverslunarviðræður við Ekvador.

Þá funduðu ráðherrarnir einnig með þingmanna- og ráðgjafanefndum EFTA um fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og þróun EES-samningsins.

Fundinn sátu auk Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Dilek Ayhan, aðstoðarráðherra í viðskipta- og sjávarútvegsráðuneyti Noregs. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum