Hoppa yfir valmynd
30. mars 2015 Utanríkisráðuneytið

Úttekt Ríkisendurskoðunar staðfestir að sendiskrifstofur séu vel reknar

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir nýútkomna úttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri og starfsemi sendiskrifstofa í öllum aðalatriðum jákvæða og að hún staðfesti það að þær séu vel reknar.

Í úttektinni kemur skýrt fram við hvaða aðstæður sendiskrifstofur hafa verið reknar, en rekstrarkostnaður þeirra hefur verið skorinn niður um 30% frá árinu 2007. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð bendir Ríkisendurskoðun á að sendiskrifstofur hafi verið reknar innan fjárheimilda öll árin til dagsins í dag.

Í úttektinni kemur fram að talsvert hafi áunnist undanfarinn áratug í því að jafna fjölda karla og kvenna við störf innan utanríkisþjónustunnar. Utanríkisráðherra segir jafnan fjölda karla og kvenna í hópi yngri starfsmanna  ýta undir að staða kynjanna verði jöfn í framtíðinni en þar sem utanríkisráðuneytinu haldist vel á starfsfólki, taki þetta tíma. Mikilvægt sé að vakað sé yfir þessu.

Fram kemur að útsendum starfsmönnum á sendiskrifstofum erlendis hefur fækkað um fjórðung og staðarráðnum um 13% á síðasta áratug. Utanríkisþjónusta Íslendinga sé mun umfangsminni en annarra Norðurlanda og færri útsendir starfsmenn að meðaltali á hverja sendiskrifstofu, eða 2,5.

Utanríkisráðherra tekur undir með Ríkisendurskoðun um að þegar lokun sendiskrifstofa komi til álita sé mikilvægt að horft sé til svokallaðrar gagnkvæmni í utanríkisþjónustu. Með því er átt við að lönd komi sér saman um að starfrækja sendiskrifstofur í höfuðborgum hvors annars. Bendir stofnunin á að mun fleiri starfi í sendiráðum erlendra ríkja hér á landi og að þau hafi meiri umsvif en íslenskar sendiskrifstofur í þeirra löndum.

Að mati Ríkisendurskoðunar er fyrirkomulag rekstrar utanríkisráðuneytisins, þar sem sendiskrifstofur Íslands og aðalskrifstofa ráðuneytis eru reknar sem ein heild, hagkvæmt og leiði til betri nýtingar fjármuna og skýrari yfirsýnar um reksturinn. Jafnframt megi halda kostnaði við yfirstjórn sendiskrifstofa í lágmarki með þessu móti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum