Hoppa yfir valmynd
30. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra opnar ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum

Gestir á jafnréttisráðstefnu

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra opnaði í dag alþjóðlega ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum sem fram fer í Hofi á Akureyri næstu tvo daga. Auk utanríkisráðherra flutti Tarja Halonen, fyrrverandi forseti Finnlands, ræðu við opnunina. Þá mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpa ráðstefnuna.

Í ávarpi sínu greindi Gunnar Bragi frá áherslum á jafnréttismál í utanríkisstefnu Íslands, m.a. í svæðisbundnu samstarfi á vettvangi Norðurskautsráðsins og Norðurlandaráðs og innan Sameinuðu þjóðanna. Sagði ráðherra mikilvægt að efla umræður og hlut jafnréttismála í starfi Norðurskautsráðsins enda væri það mikilvægur liður í sjálfbærri mannvistar- og samfélagsþróun á norðurslóðum. 

Á ráðstefnunni, sem um 140 manns taka þátt í, munu fulltrúar stjórnvalda, fræðasamfélags, viðskiptalífs, félagasamtaka og frumbyggja frá öllum Norðurskautsríkjunum fjalla um aðstæður kvenna og karla á svæðinu, m.a. aðgang og yfirráð auðlinda, þátttöku kynjanna í ákvarðanatöku og stjórnmálum, byggðaþróun, öryggi og velferð.

Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að víðtækri og markvissri umræðu um jafnréttismál samtímans á svæðinu og beina um leið athygli að þeim áskorunum sem íbúar og samfélög á norðurslóðum standa frammi fyrir, m.a. áhrifa af loftlags- og umhverfisbreytingum á norðurslóðum. Jafnframt er það von skipuleggjenda að með ráðstefnunni verði lagður grunnur að áframhaldandi samstarfi þeirra mörgu hagsmunaaðila sem rannsaka, kenna, miðla og stuðla að jafnrétti kynjanna á norðurslóðum.

Ráðstefnan er styrkt af íslenskum stjórnvöldum, utanríkisráðuneyti Svíþjóðar, Norrænu ráðherranefndinni, auk þess sem hún nýtur stuðnings Finnlands, Færeyja, Noregs, frumbyggjasamtaka Aleuteyja (AIA) og Norðurskautsráðsins. Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru utanríkisráðuneytið, Jafnréttisstofa, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðanet Íslands.

Opnunarávarp utanríkisráðherra
Ávarp Tarja Halonen

Allar nánari upplýsingar; dagskrá, fyrirlesara ofl. má finna á vefsíðu ráðstefnunnar .

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum