Hoppa yfir valmynd
12. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Rík áhersla á jafnréttismál

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sat í gær fund þróunarnefndar Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Nefndin sinnir pólitískri stefnumörkun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og er skipuð 25 ráðherrum og seðlabankastjórum í umboði hinna 188 aðildarríkja bankans.

Að þessu sinni ræddi nefndin hvernig Alþjóðabankinn geti betur brugðist við ójafnræði í heiminum, og aukið velmegun og hagsæld fyrir þá fátækustu. 

Í ræðu sinni lagði Gunnar Bragi áherslu á að til þess að geta brugðist við þessum áskorunum þurfi að fjárfesta enn frekar í mannauði í fátækustu ríkjunum, tryggja jafnrétti kynjanna og efla tekjuöflun innan þróunarlandanna sjálfra. 
 
Forseti Alþjóðabankans, Jim Kim, sagði í opnunarávarp sínu að mikilvægt væri að bregðast hratt við ebólufaraldrinum, finna lausn á lofslagsvandanum og að enn ríkari áhersla verði lögð á jafnréttismál í öllu starfi bankans. 

Þá voru orkumál til umræðu yfir hádegisverði nefndarinnar, þar sem Gunnar Bragi vakti sérstaka athygli á þeim miklu tækifærum sem felast í jarðhitanýtingu. Þá hvatti hann ríki til þátttöku í samstöðuhópi um jarðhita og sagði að Ísland muni styðja enn frekar við jarðhitasamstarf Íslands og Alþjóðabankans á komandi mánuðum.  

Sjá yfirlýsingu utanríkisráðherra í þróunarnefndinni í heild sinni (á ensku).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum