Hoppa yfir valmynd
27. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Málefni hafsins og Úkraínu rædd í New York

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í gær þátt í ráðherrafundi um málefni hafsins sem haldinn var samhliða allsherjarþingi Sameinuðu  þjóðanna í New York. 

Utanríkisráðherra fjallaði um þau atriði sem Ísland leggur áherslu á að verði leiðarljós í mótun nýrra markmiða um sjálfbæra þróun sem ætlunin er að samþykkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að ári. Í fyrsta lagi sagði Gunnar Bragi að auðlindir hafsins beri að nýta á sjálfbæran hátt til að auka fæðuöryggi á heimsvísu og berjast gegn fátækt. Í öðru lagi þurfi að efla ábyrga fiskveiðistjórn, leggja af opinbera styrki í sjávarútvegi og berjast gegn ólöglegum fiskveiðum. Í þriðja lagi sé brýnt að vernda vistkerfi sjávar og berjast gegn mengun í hafi og í fjórða lagi þurfi að byggja upp getu meðal þróunarríkja til að styrkja fiskveiðistjórnun og verndun á auðlindum hafsins.       

„Á fundinum lagði ég áherslu á að ríki heims verði að geta nýtt auðlindir sjávar með sjálfbærum hætti þar sem ákvarðanir stjórnmálamanna byggist á vísindalegum rökum en ekki á pólitískum tilfinningarökum. Í hafinu eru vannýttar auðlindir en slök fiskveiðistjórn leiðir á sama tíma víða til ofveiði. Ísland mun áfram beita sér fyrir því að alþjóðleg stefnumörkun taki á þessum vanda og að skynsamlega verði tekið á sjónarmiðum bæði nýtingar og verndunar á þessum dýrmætu auðlindum" segir Gunnar Bragi.  

Fyrr um daginn tók Gunnar Bragi þátt í ráðherrafundi aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um öryggishorfur í álfunni. Á fundinum sagði Gunnar Bragi að innlimun Krímskaga í Rússlandi ógni öryggi í Evrópu. Vísaði hann til þess að Helsinki yfirlýsingin sem er grundvöllur starfsemi ÖSE feli í sér ákveðin grundvallargildi í samskiptum aðildarríkjanna, meðal annars að virða beri sjálfstæði ríkja og fullveldi landamæra þeirra og að ekki skuli beita hernaðarafli í deilumálum. Sagði hann grundvallaratriði að öll aðildarríki ÖSE virði þessar skuldbindingar og alþjóðalög. Gunnar Bragi vísaði til þeirra skrefa sem úkraínsk stjórnvöld hafa tekið nýverið til að auka réttindi héraðanna í austurhluta Úkraínu og hvatti rússnesk stjórnvöld til að bregðast við þessum skrefum á uppbyggilegan hátt.        

Þá tók Gunnar Bragi þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og CARICOM ríkjanna þar sem fjallað var um samvinnu ríkjanna, samfélagsþróun, málefni sjávar og áhrif loftslagsbreytinga á Karíbahafsríkin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum