Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2014 Utanríkisráðuneytið

Ákall til öryggisráðsins að beita sér fyrir varanlegri lausn í Palestínumálinu - Hernámið er rót vandans

Á opnum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í New York í kvöld um ástand mála fyrir botni Miðjarðarhafs fordæmdi Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, brot beggja aðila á alþjóðlegum mannúðarlögum og sagði framferði Ísraelshers í hernaðinum gagnvart Gaza vekja upp spurningar um hvort meðalhófs sé gætt í samræmi við alþjóðalög og skuldbindingar.

Í ræðu fastafulltrúa voru sjónarmið íslenskra stjórnvalda áréttuð og harmað það mannfall sem orðið hefur meðal óbreyttra borgara á síðustu dögum. Ástandið á Gaza kalli á tafarlaust vopnahlé til að skapa grundvöll að varanlegri lausn. Í ræðunni kom fram krafa um að öryggisráðið axlaði ábyrgð sína og tæki á málinu með afgerandi hætti. Jafnframt  var framlagi Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, til að miðla málum fagnað og skorað á hann að halda áfram að beita sér að varanlegri lausn.

Fastafulltrúi sagði í ræðu sinni  að upphaf og endir átakanna og mannfalls síðustu daga fælist í hernámi Ísraelsstjórnar á Gaza og Vesturbakkanum, þar með talið Austur-Jerúsalem. Í því samhengi var minnt á að um þessar mundir séu tíu ár síðan Alþjóðadómstóllinn í Haag hafi gefið það álit sitt að veggurinn sem reistur var á hernumdu svæðunum brjóti í bága við alþjóðalög. Hernámið hafi áhrif á daglegt líf Palestínumanna og brjóti mannréttindi þeirra, eins og ferðafrelsi, eignarétt, funda- og tjáningarfrelsi og réttinn til menntunar. Áréttað var að átta ár eru síðan Gaza-svæðið var girt af með hervaldi og einangrað með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúana.

Hjálagt fylgir ræða fastafulltrúa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum