Hoppa yfir valmynd
13. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Fulltrúar Noregs, ESB og Færeyja kallaðir til fundar í utanríkisráðuneyti

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lét í dag kalla sendiherra Noregs og fulltrúa Evrópusambandsins og Færeyja á fund í utanríkisráðuneytinu til að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið hefði verið að nýgerðu samkomulagi um makrílveiðar sem stuðlar að veiðum langt fram úr ráðleggingum Alþjóðahafrannsóknarráðsins og stefnir sjálfbærri nýtingu stofnsins í hættu.

„Íslendingar hafa tekið þátt í samningaviðræðum um makríl til að tryggja réttmætan hlut Íslands á grundvelli sjálfbærra veiða allt fram í miðja síðustu viku þegar fundi strandríkjanna var slitið. Ísland og Evrópusambandið höfðu náð samkomulagi á grundvelli sjálfbærra veiða sem ESB snýr nú baki við.  Svo virðist sem viðsemjendur okkar hafi unnið að annars konar samkomulagi á bak við tjöldin,“ sagði Gunnar Bragi.  
Hann sagði að Íslendingum væru settir afarkostir um að ganga inn í samkomulag sem gengi út á að stunda ofveiði á makríl, að minnsta kosti fyrsta kastið. „Niðurstaðan er sú að allir tapa. Við höfum verið tilbúin til viðræðna á grundvelli ábyrgrar fiskveiðistjórnunar. Evrópusambandið var með okkur í því þangað til í gær. Sjálf auðlindin er í hættu með þeirri ofveiði sem samkomulagið leggur grunninn að,“ sagði ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum