Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2013 Utanríkisráðuneytið

Ísland tekur sæti í þróunarnefnd Alþjóðabanka og AGS á næsta ári

Ráðherrar kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum, ásamt forseta bankans, Dr. Jim Kim
Ráðherrar kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum, ásamt forseta bankans, Dr. Jim Kim

Samráðsfundur ráðherra kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum, ásamt forseta bankans, Dr. Jim Kim, fór fram í dag við Bláa Lónið og sat Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundinn fyrir hönd Íslands. 

Samráðsfundur ráðherra kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum, ásamt forseta bankans, Dr. Jim Kim, fór fram í dag við Bláa Lónið og sat Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundinn fyrir hönd Íslands. Alþjóðabankinn er meðal helstu samstarfsstofnana Íslands á sviði þróunarsamvinnu og mun Ísland sitja í þróunarnefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd kjördæmisríkjanna átta á næsta ári. 

Á fundinum var m.a. rætt um nýja stefnu bankans um útrýmingu sárafátæktar og aukna velmegun fyrir þá fátækustu, stöðu mála varðandi endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar og hlutverk stofnunarinnar við að stuðla að framgangi þróunarmarkmiða Alþjóðabankans. Þá var einnig fjallað um fyrirhugaðar breytingar á atkvæðavægi, sem miða að því að styrkja rödd þróunarríkja á vettvangi bankans. Auk þess fóru fram umræður um samstarf Alþjóðabankans og Sameinuðu Þjóðanna og lögðu Norðurlöndin áherslu á að það verði eflt.

Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Dr. Jim Kim, forseta Alþjóðabankans, þar sem helstu áherslumál Íslands á vettvangi bankans voru rædd. Ráðherra vék sérstaklega að mikilvægi jafnréttismála í starfi bankans og lýsti yfir ánægju með samstarf Íslands og Alþjóðabankans á sviði jarðhitanýtingar og sjávarútvegsmála. Að lokum ræddu þeir stuttlega um aðkomu Íslands að endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum