Hoppa yfir valmynd
24. september 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með kjördæmisfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í gær fund með Satu Santala, aðalfulltrúa kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í stjórn Alþjóðabankans en hún er stödd hér á landi. Á fundinum ræddu þau um framvindu helstu mála innan Alþjóðabankans, einkum hina nýju heildarstefnu bankans og innleiðingu hennar. Þá ræddu þau einnig fyrirhugaða setu Íslands í þróunarnefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á næsta ári.

Ráðherra upplýsti Satu um stefnu og áherslur Íslands í þróunarmálum, en Alþjóðabankinn er meðal fjögurra áherslustofnana Íslands samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2013-2016. Voru þau sammála um að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hefðu mikið til málanna að leggja á sviðum sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og við uppbyggingu velferðarkerfa.

Þá lagði ráðherra einnig sérstaka áherslu á mikilvægi þess að jafnréttismál og mannréttindi skipuðu veigameiri sess í starfi bankans, og lýsti yfir ánægju sinni yfir því að mannréttindi hafi í fyrsta skipti ratað inn í stefnuskjal Alþjóðabankans með jafn afgerandi hætti.

Satu Santala mun dvelja hér á landi fram á miðvikudag, en tilefni heimsóknar hennar er samráðsfundur kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum sem haldinn er í Reykjavík að þessu sinni. Þá mun hún einnig halda stutta kynningu um þróunarmál fyrir starfsfólk ráðuneytisins, ÞSSÍ, þróunarsamvinnunefnd, samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu, fulltrúa utanríkismálanefndar, o.fl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum