Hoppa yfir valmynd
5. mars 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpar fund sameiginlegrar ráðgjafanefndar Íslands og Svæðanefndar ESB

Frá fundinum í ráðhúsinu
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ávarpaði í gær fyrsta fund sameiginlegrar ráðgjafanefndar Íslands og Svæðanefndar ESB (Committee of the Regions), sem haldinn var í ráðhúsi Reykjavíkur. Tilgangur ráðgjafanefndarinnar er að koma á formlegu sambandi á milli Íslands og Evrópusambandsins í málefnum sveitarfélaga í tengslum við umsókn Íslands um aðild að ESB. Á þessum fyrsta fundi var rætt sérstaklega um hlutverk og þátttöku íslenskra sveitarfélaga í aðildarferlinu og í byggðamálastefnu ESB komi til aðildar en um þriðjungur allra útgjalda ESB rennur til stuðnings atvinnu- og uppbyggingarverkefnum á svæðum sem eiga undir högg að sækja.  

Í ávarpi sínu sagði Össur nefndina mikilvægan samræðuvettvang, undirstrikaði þann stóra sess sem byggðamál skipa í aðildarviðræðunum, og ræddi hverju þátttaka í hinum sameiginlegu sjóðum ESB gæti skilað íslenskum sveitarfélögum. Þar sagði ráðherra stuðninginn ekki einungis birtast í formi fjármagns heldur einnig aukins skipulags og stefnu sem sett væri til langs tíma. Þá ræddi hann um IPA styrkina og hversu mikinn áhuga þeir hafa vakið hjá bæjarfélögum um land allt.

Nefndina skipa sex fulltrúar frá Svæðanefnd ESB og sex fulltrúar íslenskra sveitarfélaga. Henni er stýrt í sameiningu af Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Mercedes Bresso, varaforseta Svæðanefndarinnar. 

Áætlað er að nefndin hittist tvisvar á ári. 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum