Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fagnar frestun laga sem brjóta réttindi samkynhneigðra

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fagnar því að ríkisstjórn Malaví hafi frestað gildistöku laga sem brjóta á mannréttindum samkynhneigðra. Um er að ræða lagagreinar í hegningarlögum sem kveða á um að samkynhneigð sé ólögleg og varði allt að 14 ára fangelsi. Ráðherra segir lögin dæmi um grófa fordóma  og miklu skipti að standa fast gegn þeim til að koma í veg fyrir að þau nái fram að ganga. Ákvörðun Malaví-stjórnar sé til marks um að slík mótmæli hafi áhrif.

Utanríkisráðherra minnir á að að hvarvetna þar sem tilefni gefist styðji Ísland réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks, bæði lagaleg og félagsleg. Ísland fordæmi jafnframt hvers kyns mismunun og ofbeldi, enda sé um grundvallarmannréttindamál að ræða.  Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað komið á framfæri athugasemdum við stjórnvöld í Malaví vegna stöðu samkynhneigðra og utanríkisráðherra tók málið upp við stjórnvöld í heimsókn sinni til landsins í mars sl.

Ákvörðun Malaví-stjórnar frestar framkvæmd lagagreinanna þar til þing landsins hefur fjallað um málið. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að málinu sé ekki lokið, þótt mikilvægum áfanga hafi verið náð. Samkvæmt lögunum myndi samband tveggja karla varða allt að 14 ára fangelsi og tveggja kvenna, fimm ára fangavist.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum