Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2012 Utanríkisráðuneytið

Tim Ward valinn málflytjandi í Icesave-málinu

Tim Ward aðalmálflytjandi Íslands
Tim Ward aðalmálflytjandi Íslands

Utanríkisráðherra hefur í dag, að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd, kynnt ríkisstjórninni ákvörðun sína um að ráða Tim Ward QC til að vera aðalmálflytjandi í samningsbrotamálinu sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur höfðað fyrir EFTA-dómstólnum vegna ábyrgðar á lágmarkstryggingu á Icesave-reikningunum.

Tim Ward er starfandi lögmaður við lögmannsstofuna Monckton Chambers í London en hún er ein hin sterkasta á sviði Evrópuréttar. Tim Ward fékk réttindi til málflutnings árið 1995 og hefur nýverið öðlast hin bresku QC-réttindi (Queen's Council) en um tíundi hluti þeirra sem eru með málflutningsréttindi í Bretlandi er veitt sérstök heimild til að bera slíkan titil.

Tim Ward hefur flutt mörg þekkt mál, þar af um 50 fyrir Evrópudómstólnum. Mál sem hann hefur flutt spanna vítt svið en hafa m.a. varðað jafnræðisregluna og mismunun og skaðabótaskyldu ríkja vegna vanrækslu á að innleiða tilskipanir ESB (svokölluð Francovich regla svipuð og dæmd var í hinu svokallaða Erlu Maríu-máli). Hann var tilnefndur sem lögmaður ársins árið 2008 í Bretlandi og er metinn einn af bestu lögmönnum á þeim sviðum sem máli skiptir.

Við undirbúning málsins var í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar haft samráð við fjölda aðila sem hafa ríka reynslu hafa af rekstri dómsmála, innlenda sem erlenda, auk þess sem utanríkisráðherra átti fundi með fulltrúum hreyfinga sem hafa beitt sér gegn þeim samningum sem gerðir hafa verið um lyktir málsins.

Við val á málflytjanda var lögð sérstök áhersla á eftirtalin sjónarmið:

  • Mikla og farsæla reynslu af málflutningi fyrir Evrópudómstólnum (dómstól ESB) og öðrum sambærilegum alþjóðlegum dómstólum.
  • Metnað og færni í að flytja mál af sannfæringu
  • Óaðfinnanleg tök á að flytja mál á ensku, ef viðkomandi hefði ekki ensku að móðurmáli. Þjóðerni skipti ekki máli.
  • Tök á að setja sig strax inn í málið og helga því tíma sinn meðan á þarf að halda
  • Að engir hagsmunaárekstrar séu til staðar, hvorki formlega né þannig að líta megi með einhverjum hætti á tengsl eða fyrri störf viðkomandi sem óheppileg.

Samhliða vali á aðalmálflytjanda verður komið á fót öflugu teymi sérfræðinga til að starfa með honum.

Eftirfarandi er slóð að æviferilságripi Tim Ward: http://www.monckton.com/barrister/24/tim-ward-qc

 Í Reykjavík, 10. janúar 2012.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum