Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2011 Utanríkisráðuneytið

Hörð krafa um að einangrun Gaza verði rofin

ÖS á Gaza
ÖS á Gaza

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra krafðist þess á Gaza svæðinu í dag að herkví svæðisins yrði aflétt. Herkvíin af hálfu Ísraela hefði hræðlegar afleiðingar fyrir íbúa Gaza og héldi stærstum hluta þeirra í sárri fátækt. Takmarkanir Ísaela á innflutningi, m.a. á byggingarefni, kæmi í veg fyrir að hjálparstofnanir gætu sinnt byggingu húsnæðis fyrir flóttafólk.

Mörgum nauðsynjavörum, sem ekki hefur tekist að flytja inn með eðililegum viðskiptum, afla íbúar Gaza með því að smygla þeim í gegnum göng sem liggja undir landamærin, þar með talið byggingarefni sem notað er til uppbyggingar á Gaza. Utanríkisráðherra átti þess m.a. kost í heimsókn sinni að skoða göng sem notuð eru með þessum hætti til að flytja inn nauðsynjavörur. Um helmingur alls innflutnings til Gaza kemur gengum 1.500 göng frá Egyptalandi.

Í heimsókn sinni skoðaði ráðherra áform um byggingu skóla, heilsugæslustöðva og íbúða fyrir flóttamenn sem ekki hafa náð fram að ganga vegna andstöðu Ísraelsstjórnar sem þarf að gefa út tilskilin leyfi. Af 10.000 íbúðum sem þörf er á að byggja og erlend ríki og alþjóðastofnanir vilja fjármagna, hafa aðeins fengist tilskilin leyfi frá ísraelskum stjórnvöldum fyrir 1.500 íbúðum og af 100 skólum sem nauðsyn er að reisa á næstu 3 árum eru leyfi til reiðu fyrir aðeins 18.

Á Gaza svæðinu býr um 1,8 milljón manna og af þeim er rúm milljón skilgreind sem flóttamenn. 750.000 eru háð matargjöfum frá UNRWA, Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Palestínu. Atvinnuleysi er 45%, langmest á meðal ungs fólks.

Í ferð sinni á svæðið í dag hitti utanríkisráðherra Rafiq al-Makki, borgarastjóra  Gaza-borgar. Í samtölum við hann lagði ráðherra áherslu á að Hamas- og Fatah-hreyfingarnar yrðu að ná saman um myndun þjóðstjórnar í Palestínu því að á meðan deilur sundruðu Palestínumönnum innbyrðis, væri erfiðara fyrir alþjóðasamfélagið að sýna þeim samstöðu.

Sömu áherslu lagði ráðherra á fundi með forystumönnum í viðskiptalífi á Gaza. Mamoun Abu shahla, sem m.a.  hefur verið rætt um sem forsætisráðherra nýrrar þjóðstjórnar Palestínumanna, útskýrði hverning herkví Ísraela ýtti undir ólöglegan svartamarkað sem hefði mjög slæm áhrif á eðlileg viðskipti á Gaza.

Ráðherra heimsótti endurhæfingamiðstöð og stoðtækjaverkstæði þar sem íslenskir sérfræðingar hafa starfað með heimamönnum og nýtt nýja tegund stoðtækja sem Össur Kristinsson hefur hannað.  Þá átti ráðherra fund  með fullrúum sjómanna og útvegsmanna á Gaza. Þeim er meinað að sækja sjóinn út fyrir 3 sjómílur en þar fyrir utan eru gjöful fiskimið.

Utnaríkisráðherra átti fund með yfirmönnum UNRWA-stofnunarinnar,  sem sér helmingi íbúanna fyrir heilsugæslu og menntun. Hann heimsótti einnig sumarleika barna sem haldnir eru á hverju sumri og eru þáttur í menntunarátaki UNRWA. Eins ræddi ráðherra við konur sem reka handverksmiðstöð sem Ísland hefur stutt fjárhagslega og selja handverk til Vesturlanda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum