Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2006 Utanríkisráðuneytið

Gildistaka fríverslunarsamnings milli Íslands og Færeyja

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 076

Í dag tók gildi nýr fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja, sem felur í sér að Ísland og Færeyjar verða sameiginlegt efnahagssvæði. Samningur þessi er víðtækasti samningur um efnahags- og viðskiptamál sem Ísland hefur gert og tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, fjárfestinga og viðskipta með landbúnaðarafurðir. Samkvæmt samningnum skulu íslenskir ríkisborgarar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar og færeysk fyrirtæki. Jafnframt skulu Færeyingar og færeysk fyrirtæki njóta sömu réttinda hér og landi og íslenskir ríkisborgarar og íslensk fyrirtæki.

Af þessu tilefni efndu íslensk og færeysk stjórnvöld til sameiginlegrar mótttöku í húsakynnum sendiráðs Íslands í Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Þar tilkynnti Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra að í tilefni gildistöku þessa víðtæka samnings og í ljósi viðtækra sögulegra, menningarlegra og viðskiptalegra tengsla Íslands og Færeyja, hefðu íslensk stjórnvöld ákveðið að opna aðalræðisskrifstofu í Þórshöfn í Færeyjum með útsendum starfsmanni á næsta ári, að uppfylltum öllum formskilyrðum. Verður aðalræðismaður Íslands fyrsti útsendi sendierindreki erlends ríkis með aðsetur í Færeyjum.

Fyrr í dag sat Valgerður Sverrisdóttir fund utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Á fundinum ræddu ráðherrarnir meðal annars um stöðu öryggismála á Norður-Atlantshafi í kjölfar brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Þá var einnig fjallað um framtíð samstarfs Evrópusambandsríkjanna, Íslands, Noregs og Rússlands innan svonefndrar „Norðlægu víddar“, samskipti Norðurlanda við Rússland og þátttöku Norðurlandanna í Norðurskautsráðinu. Þá fór utanríkisráðherra yfir stöðu framboðs Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ennfremur ræddu ráðherrarnir stöðu alþjóðamála, þ.m.t. ástandið í Mið-Austurlöndum, stöðu mála í Afganistan, átökin í Darfúr og friðarferlið á Srí Lanka.

Utanríkisráðherra tók einnig þátt í fundi utanríkisviðskiptaráðherra Norðurlandanna. Á fundinum ræddu ráðherrarnir hvernig taka mætti þráðinn upp að nýju í Doha-samningalotunni innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Einnig ræddu ráðherrarnir um stöðu mála á Evrópska efnahagssvæðinu og innri markaði ESB.

Í gær kynnti utanríkisráðherra sér starfsemi birgðastöðvar Barnahjálpar S.þ. sem staðsett er í Kaupmannahöfn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum